Hef sjaldan fundið fyrir eins miklu þjóðarstolti

Króksarinn Matthías Rúnarsson býr nú í Reykjavík og nemur á íþróttabraut við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Matthías heldur með Manchester United og líklega hefur  áhuginn smitast snemma í gegnum móðurmjólkina.

Þegar ég var nýfæddur fékk mamma, Manchester United trefil í sængurgjöf, eftir það hófst  áhugi mömmu á bæði fótbolta og Manchester United. Síðar fékk ég áhugann þegar ég var um það bil átta ára.

Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? Erfitt að segja. Við fengum nokkra mjög góða leikmenn til okkar í sumur en þeir hafa flestir staðið sig einstaklega illa það sem af er leiktíðinni. Get ekki sagt að þjálfarinn sé að gera góða hluti. Þrátt fyrir þetta held ég að mínir menn rífi sig upp og endi í 4. sæti.

Ertu sáttur við stöðu liðsins í dag? Nei. Flestir leikmenn liðsins í dag eru bara einfaldlega ekki að spila vel.

Hefur þú einhverntímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? Já, aðallega þegar púllarar eru eitthvað að rífa sig. Fæ heldur betur að finna fyrir því núna eins og staðan er í dag. Alltaf gaman að sjá púllara þegar þeir fá einhverja smá von um að geta aftur verið talið sem stórt lið.

Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar? Antonio Valencia. Frábær leikmaður í alla staði.

Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? Já, ég hef farið á einn leik með Manchester United. Það var árið 2015 á Old Trafford á móti Aston Villa. Að sjálfsögðu unnum við leikinn lokatölur  3-1.

Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? Yfir árin safnast upp allskonar hlutir. En ég á tvo trefla, þrjár treyjur, tvennar stuttbuxur, þvottapoka, könnu, tvær töskur, húfu, derhúfu, handklæði, rúmföt, plaköt og fána.

Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? Mamma og pabbi halda bæði með Manchester United, illa gengur að fá kærustuna til að fylgjast með fótbolta en ef hún væri spurð þá heldur hún með Manchester United.

Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? Nei. Svoleiðis gerir maður ekki.

Uppáhalds málsháttur? Glory Glory Man Utd.

Einhver góð saga úr boltanum? Við feðgarnir fórum á EM í Frakklandi í sumar og það var frábær upplifum. Ég held að allir þeir sem voru á leiknum Ísland - Austurríki í lokaleik í F riðils á EM séu sammála mér þegar ég segi að þegar Arnór Ingvi Traustason renndi sér í boltann og laumaði honum í netið með síðustu spyrnu leiksins sé besta augnablik sem ég hef upplifað. Stemningin var einstakleg. Allir trylltust. Hreint út sagt ógleymanlegt. Hef sjaldan fundið fyrir eins þjóðarstolti.

Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? Þegar ég bjó fyrir norðan kom Elfa Björk Sigurjónsdóttir frænka mín í heimsókn til okkar mömmu. Elfa kom nokkuð seint um kvöldið og var hún því mjög þreytt og vildi helst fara að sofa. Við mamma höfðum alltaf sett utan um rúmfötin hennar áður en hún kom í heimsókn en í þetta skipti settum við utan um rúmförin með Manchester United sængurföt. Þar sem Elfa heldur með Arsenal var hún ekki beint himinlifandi með þennan hrekk en fannst hann þó ágætur.

Spurning frá Helga Frey Margeirssyni - Hvort stingur meira, að hafa „þann niðurlægða“ sem stjóra eða hægasta framherja deildarinnar sem lykilmann?

Svar: Ég spyr Helga á móti: Hversu gamall varstu þegar Liverpool vann deildina síðast?

Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? Sigurður Þór Jósefsson

Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? Hvenær á svo að fara á leik?

 

Áður birst í 42. tbl. Feykis 2016.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir