Hlaupið fyrir Einstök börn á morgun

Hlaupahópurinn 550 Rammvilltar blæs á ný til styrktarhlaups fyrir félagið Einstök börn þann 1. maí á Sauðárkróki en hlaupið hefst kl. 14:00. Veðurstofan spáir björtu veðri með dassi af norðanátt en er frekar sparsöm á hitastigin. Það stefnir því allt í upplagt hlaupaveður og engin afsökun að hanga heima.

Upphitun hefst við Sundlaug Sauðárkróks upp úr kl. 13:30 og hlaupið hefst hálftíma síðar. Í boði verða tvær leiðir, 3 og 5 km, sem hægt er að stytta eða lengja að vild. Aðalmálið er bara að mæta, hafa gaman og njóta útiverunnar saman! Bolir og annar varningur frá Einstökum börnum verður til sölu á staðnum.

Þátttakendur eru hvattir til að mæta í litríkum fötum í anda Einstakra barna. Frjáls framlög á staðnum til styrktar Einstökum börnum auk þess sem hægt er að millifæra á 0161-15-631208, kt. 120889-3389. Félagsmenn hlaupahópsins 550 Rammvilltar munu greiða 2000 kr. í þátttökugjald sem rennur beint til Einstakra barna og er öllum frjálst að leggja málefninu lið á staðnum.

„Hlaupum, löbbum eða hjólum saman - öll velkomin!“ segir í Facebook-tilkynningu um viðburðinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir