AÐSENT - Jón Stefán Gíslason: Hrakfallabálkur af hálendinu, febrúar 1973

Flugbjörgunarsveitin í Varmahlíð var stofnuð 17. október árið 1971. Hún byggði á hugsjón heimamanna, fyrirmynd úr Reykjavík og að miklu leiti vegna áhuga Brynleifs Tobíassonar á flugi. Með aukinni umferð lítilla flugvéla blasti við að slys eða óhöpp gætu orðið tíðari og ekki alltaf á aðgengilegum stöðum. Mannkraftur var nógur og í góðu formi en tækjakostur enginn. Við fengum aðstöðu í Gamla Lundi sem þá stóð auður og var í eigu Sigurpáls Árnasonar.

Blásið var til ferðar upp á Hálendið í febrúar 1973 til að reyna að komast að, hvað sá bílakostur sem við höfðum yfir að ráða væri fær um. Stefna skyldi í Laugarfell. Þetta var fyrir daga stórtækra jeppabreytinga og stærstu jeppadekk sem fengust þá voru 1000x16 eða 1000x15 undan Volvo Lapplander. Þeir bílar voru ekki nærtækir hér svoleiðis að okkar bílar voru á því algengasta 650-750x16 en keðjur því meira notaðar. Þessi stærð samsvarar 235-255x15/16 í dag. Lapplander dekkjum var yfirleitt ekki hægt að koma undir jeppa þeirra tíma vegna plássleysis og kallaði á miklar breytingar sem ekki var næg kunnátta fyrir í þá daga.

Keðjur voru mikilvægar og helst ekki færri en fjórar. Töng, krókar og þverbönd mátti heita staðalbúnaður að vetrinum, að meðtalinni skóflu. Ekki man ég eftir neinum sérstökum undirbúningi, en við höfðum með okkur nóg af hráolíu, bensíni, skóflum, köðlum og algengustu verkfærum. Viðkomandi heimilisyfirvöld voru beðin um að taka til nesti sem þægilegt væri að éta úr greip sinni í nánast hvaða veðri sem væri.

Til fararinnar völdust Brynleifur Tobíasson, sem kunni á kompás og þar að auki afar lunkinn bifvélavirki. Átti á þeim árum stuttan Land Rover 1955, K343, sem búinn var talstöð og skyldi þar af leiðandi vera tengiliður okkar við umheiminn. Hann var á 650x16 dekkjum með blæju og þess vegna léttur á sér.

Næstan skyldi telja Kristján Sigurpálsson, afrennt léttleikamenni og verulega áræðin í hverju sem var. Verklegur ökumaður sem réði yfir löngum Land Rover, K523, sá var nýskráður 18. 12. 1961 á 750x16 dekkjum.

Stefán Hrólfsson á Keldulandi, þrautreyndur í alls konar slarki bæði í byggð og á fjöllum uppi en vanari hestum við slíkar aðstæður. Hann hafði nýlega eignast langan Land Rover (sem áður var í eigu Rögnvaldar í Flugumýrarhvammi). Sá var á 750x16 dekkjum og hagaði sér vissulega öðruvísi en hross gera við svipaðar aðstæður.

Ég sjálfur var á fjórða jeppanum sem var Willys, K335, af óræðum uppruna, skráður fyrst 1951 eftir þáverandi upplýsingum, á 650x16 hjólum. Kominn með litla 32 hestafla díselvél frá Perkins og olíutank aftur í gafli sem tók 100 lítra og entist í hálfan annan sólarhring. Ég var alvanur alls konar slarki í byggð en hafði á öræfi ekki komið nema upp á ásinn heima á þeirri tíð og alls ekki á bíl. Stefán bróðir var einn af þeim sem var okkur til aðstoðar. Afar léttvígur og þrekmikill, vanur alls konar darki, en varfærinn, sem stundum var kostur.

Reynald Gunnarsson, verulega harðsnúin strákur með töluvert þroskað bíla- og vélavit, jafnan óragur viðgerðamaður. Sveinn Árnason frá Víðimel, þá á sínu léttasta skeiði og ýmsu vanur. Eggert Ólafsson, víða heima og í mörgu, en hug hans vissu fáir eða þekkingu alla, sem var býsna víðtæk. Gísli Frostason, þrekmikill og hraðfær, svo flestir hundar sveitarinnar hugsuðu sig tvisvar um áður en þeir lögðu í að elta hann.

Við lögðum af stað, að því er mig minnir, klukkan fjögur um nóttina 19. febrúar 1973. Okkur gekk allt að óskum fram að Þorljótsstöðum. Þar tóku mál að vandast. Brattur sneiðingur er upp hlíðina frá bænum. Hann var skafinn sléttur við brekkuna og orðið harðfenni, en verulega hátt fall niður ef illa færi. Sumir voru settir í að höggva með skóflum rás í hjarnið fyrir hjólin brekkumegin, en aðrir í að setja á keðjur. Ég man að mér þótti sneiðingurinn ansi langur en strákarnir furðu fljótir að höggva rásina upp úr. Mig minnir að Hrólfsson færi fyrstur upp. Menn skiptu sér niður á leiðina til að halda við eða ýta, sem þurfti annað slagið. Allavega, komumst við allir upp með þessari aðstoð óskemmdir með öllu.

Var nú haldinn fundur um stefnuna sem ekki var samkomulag um. Ekki var farið að elda neitt að ráði aftur og útsýnið takmarkað. Sáum við þó framundan mikið magn af fönn og mela sem upp úr henni stóðu. Örnefni man ég engin lengur en Brynleifur dró upp sinn kompás og gaf upp stefnu sem fara skyldi í stórum dráttum. Hrólfsson sem var af okkur kunnugastur á þessum slóðum taldi vissara að stefna á fell, sem mig minnir að hann kallaði Reyðarfell. Það sást reyndar ekki eins og málum var háttað. Ekki man ég hvor stefnan varð ofan á en ég held að það hafi ekki munað á þeim miklu.

Var svo lagt af stað og gekk greiðlega í fyrstu, þar til Land Rover Brynleifs fór að gerast ókyrr í slóðinni. Þegar að var gætt, reyndist brotið augablað framanvert að aftanverðu, svo að hásingin gekk aftur öðru megin. Varð að ráði að skilja þann laskaða eftir, sem var hálfbölvað, því að í honum var talstöðin sem við ætluðum að treysta á ef illa færi. Var svo enn haldið áfram.

Færðin fór versnandi, snjórinn vaxandi, melum fækkandi sem hægt var að keyra, og ferðum sem strákarnir þurftu að hjálpa og ýta fjölgandi. Skaflarnir héldu, en á samskeytum við melana var alls staðar kafhlaup. Svo við bættum á keðjum að framan og drógum hvor annan úr festunum. Svoleiðis mjakaðist þetta áfram um stund. Kom þar, að okkur þótti, Land Rover Kristjáns fremur latrækur og þungur í meðförum, við athugun reyndist annar öxullinn brotinn, líklegast að framan. Við héldum fund þar sem ákveðið var að skilja þann laskaða eftir og hvort haldið skyldi áfram eða snúið við eins og komið var. Bjartsýni ferðamanna óx heldur með birtingunni. Ákvörðun var tekin um að halda áfram eitthvað lengra.

Sást nú orðið þetta rómaða fell sem Hrólfsson nefndi tíðast. Brynleifur gaf upp nýja stefnu eftir kompás en Hrólfsson sagðist mundi stefna á fellið og vera farinn með það sama. Það gekk eftir. Þar sem voru bara tveir bílar eftir, gamli jeppinn minn og Hrólfsson, var mér nokkur vandi að halda í við hann, því hann sló í og var farin að keyra skæting sem að ég átti ekki alveg nothæf svör við með mín 32 hestöfl og fullan bíl af strákum.

Var nú keyrt um stund. Þangað til Hrólfsson stansar snögglega. Kom í ljós að fyrir honum lá ný jeppaslóð sem við kunnum í bili ekki nein skil á. Höfðum við keyrt hringinn í kring um lítið fell eða hól og vorum því komnir aftur í eigin slóð. Var enn slegið á fundi um stefnuna en þá mun hafa verið farið að glóra í Laugarfellið sjálft og passaði nokkuð við það sem kompásinn hjá Brynleifi gaf upp. „Laugarfellið er þarna og ég er farinn“ sagði Hrólfsson og keyrði af stað, við á eftir. Var nú ekið nokkuð greitt og gat ég haldið mig til hliðar við hann, svona á köflum. Þangað til að við sjáum hvar bíllinn hjá Hrólfssyni tekur mikið stökk svo ægði saman höndum, fótum og matarílátum inni í bílnum hjá honum. Það var útsýnið sem við höfðum. Bíllinn stekkur í háaloft og flýgur með framendann upp í loft, lendir samt úr þessu á hjólunum, nokkuð harkalega, heldur samt áfram en á minni ferð en áður. Þá fer að heyrast í strákunum „Við þurfum að stoppa kallinn í tíma áður en hann lendir á auðum mel, því annað framhjólið snýst ekki“.

Hófst nú hin ákafasta eftirför sem gekk upp og ofan þrátt fyrir ákafa brýningu minna farþega en hestöflin 32, dugðu tæplega til eftirfararinnar. Fram undan okkur var snjóbreiða, þangað til Reynald kemur auga á líklegan mel, bendir á hann og segir „Nú skeður það“ og það skeði. Hrólfsson stansaði fremur snögglega, eftir kvarthring í kring um framhjólið og fór ekki lengra.

Einhver mugga hafði verið fyrirfarandi en létti smám saman á meðan á athugun skemmda stóð. Tókum við fljótlega eftir að framhjólin vísuðu meira út að neðan en góðu hófi gegndi. Brynleifur og Reynald kváðu hásinguna svo bogna, að öxlarnir gætu ekki snúist innan í henni og hófu þegar niðurrif með það að markmiði að ná öxlunum úr, öðrum eða báðum. Aðrir töldu sig sjá sjálft Laugarfellið í fjarska og sögðust ætla að hlaupa og athuga hvort rétt væri. Það voru þeir léttvígu. Eftir sátum við nokkrir sem vorum minna hlaupalegir, viðgerðarmönnum til trausts og halds. Þeim gekk nokkuð greiðlega að rífa, þar til að öxlinum sjálfum kom. Hann reyndist heldur fastari í en búist hafði verið við. Reynald bað um keðjuþverbönd og króka, járnkarl og stóran hamar sem reyndist vera til. Hófst nú glíma hans við að mutra þverbandinu bak við hjöruliðinn. Læsa krókunum saman svo ná mætti taki á öxlinum með járnkarlinum sem vogstöng. Ekki gekk það í loftköstum, því menn urðu loppnir úr járninu mjög fljótlega, enda 10-12 stiga frost. Þetta gekk þó á endanum með því að annar spennti með járnkarlinum en hinn barði hásinguna sundur og saman með hamrinum á meðan. Á endanum rann öxullinn úr og reyndist þá hitt hjólið laust líka. Eftir samsetninguna stóð á endum að fótgangandi Laugarfellsfarar voru örskammt undan og báru sig vel. Tími var kominn til að snúa við enda komið fram undir myrkur.

Hófum við nú heimferðina. Með óbilaðan kjark sem fyrr, en minn gamli jeppi einn eftir ólaskaður. Í viðgerðarstoppinu rifjuðust upp fyrir mér varnaðarorð Þorvaldar á Sleitustöðum sem ég keypti bílinn af „Þú verður að reyna að fá almennilegar hásingar undir hann, þetta herjeppadrasl er hand.. hand.. ónýtt helvíti og þú mátt alls ekki draga neitt þungt á honum“. Ég get ekki sagt að ég hafi verið alveg laus við hjartslátt þegar kom að því að draga Hrólfsson yfir fyrsta dragið með varnaðarorðum Stefáns bróður „mölvaðu nú ekkert“. Yfir dragið fór hann og strákarnir skiptu sér enn um sinn á skaflana til að vera tilbúnir að hlaupa aftan á og ýta þegar aflið var að þrjóta.

Gekk svo um stund og reyndar alls ekki illa. Komið myrkur og betra að sjá slóðir og annað. Vorum við komnir langleiðina að bíl Kristjáns, sem átti að taka með heim, er við lentum í festu, óvenju bölvaðri. Ég rykkti í Hrólfsson, að gleymdum varnaðarorðum Þorvaldar og Stefáns bróður um að mölva nú ekki neitt. Fannst samt stundum að ég heyrði eitthvert hljóð sem hafði ekki verið um morguninn, en sinnti því ekki í bili. Þá skeði það, að minn gamli jeppi gaf frá sér háan brest og stansaði ótilkvaddur í það skiptið. Þeir þustu út sem með mér voru, orðnir blautir en ekki kalt því það var hlýtt í jeppanum. Lestur Reynalds við þá athugun var alls ekki prenthæfur en hann var á mjög góðu og greinilegu máli. Afturdrifið hafði brotnað í mél og sumt af brotunum farið aftur í gegnum lokið og lág í slóðinni aftan við bílinn. Hófst nú aðgerðarlotan hin seinasta að ná afturöxlunum úr, sem gekk greiðlega. En allt var þó kolfast sem fyrr. „Við verðum að taka drifskaftið“ fullyrti Reynald, og það fór undan. Með það losnaði gamli jeppinn og við gátum haldið áfram för og nutum undanhaldsins sem þá var orðið. Kristján tók sinn bíl og eitthvað af mönnunum og héldum við ferðinni áfram um sinn. Brynleifur tók sinn jeppa til baka sem var þarna rétt neðar. Ófáar ferðir fóru strákarnir út að ýta og var vilji þeirra og dugnaður með ólíkindum. Hefði ferðalagið ekki gengið án þeirra aðkomu. Man ég ekki eftir neinum vandræðum eftir það, en mig minnir að ferðin hafi tekið 22 klukkutíma í allt. Talsverður tími og krónur fóru svo í viðgerðir eftirá.

Frásögnin er tekin saman vegna hvatningar Stefáns bróður. Honum fannst ástæða til að ferðasagan félli ekki í gleymsku, og er hún rituð í minningu þeirra sem fallnir eru úr þessum vaska hópi.

Heimildir:
Böðvar Finnbogason
Gísli Frostason
Kristján Sigurpálsson
Reynald Gunnarsson
Stefán R. Gíslason

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir