Íslandsmeistaramót í hrútaþukli á Ströndum

Það verður sannkölluð stórhátíð í Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum sunnudaginn 20. ágúst. Þá verður í fimmtánda skipti haldið Íslandsmeistaramót í hrútadómum og hefst skemmtunin kl. 14. Þessi íþróttagrein sem í daglegu tali er kölluð hrútaþukl er uppfinning Strandamanna og hefur verið haldin árlega á Sauðfjársetrinu frá árinu 2003. Á síðasta ári mættu um 500 manns til að horfa á keppnina og yfir 70 tóku þátt.

Kaffihlaðborð og kjötsúpa verður í boði á Sauðfjársetrinu, en ókeypis verður inn á safnið og sýningar þess. Þar er m.a. hægt að skoða fastasýninguna Sauðfé í sögu þjóðar og tvær sérsýningar sem heita Álagablettir og Sumardvöl í sveit, en sú síðastnefnda var opnuð haustið 2016 eftir síðustu hrútadóma. Samhliða hrútadómunum er haldið stórhappdrætti í tilefni dagsins og í vinning eru úrvals líflömb af Ströndum og úr Reykhólasveit. Miðar í lambahappdrættinu eru seldir á staðnum, en fyrir þá sem komst ekki er líka hægt að kaupa miða með því að hringja í Ester framkvæmdastjóra í síma 693-3474. 

Hrútadómarnir fara þannig fram að helstu sauðfjárspekúlantar landsins sem jafnframt eru í dómnefnd velja og meta fjóra íturvaxna Strandahrúta með öllum nútíma tækjum og tólum. Dómnefndin gefur þeim stig fyrir ýmsa eiginleika eftir stigakerfi sem bændur og vanir hrútaþuklarar kunna og raðar þeim í gæðaröð. Oftast eru valdir dálítið ólíkir hrútar, alls ekki þeir fjórir bestu. Síðan reyna keppendur sig við matið á hrútunum með hendurnar einar og hyggjuvitið að vopni og reyna að komast að sömu niðurstöðu og dómararnir.

Á síðasta ári sigraði kona í fyrsta skipti í hrútadómunum við mikinn fögnuð viðstaddra. Þá eru Strandamenn jafnan sérlega áhugasamir um að halda titlinum innan sýslumarkanna, en það hefur reyndar ekki alltaf gengið eftir.  Keppt er í tveimur flokkum og allir geta verið með. Þeir sem kunna ekki á stigakerfið keppa í flokki sem kenndur er við óvana og þeir eiga að raða hrútunum í röð eftir því hversu miklir gæðagripir þeir eru og útskýra hvernig þeir fundu röðina út. Þeir sem keppa um Íslandsmeistaratitilinn þurfa hins vegar að dæma hrútana eftir stigakerfinu sem bændur gjörþekkja. Afar veglegir vinningar eru í boði fyrir sigurvegara í báðum flokkum.

Fyrir utan heiðurinn af því að standa uppi sem Íslandsmeistari í hrútadómum fær sigurvegarinn einnig til varðveislu í eitt ár verðlaunagripinn Horft til himins sem hagleiksmaðurinn Valgeir Benediktsson í Árnesi í Trékyllisvík hannaði og gefin var af búnaðarsambandi Strandamanna árið 2005 til minningar um Brynjólf Sæmundsson héraðsráðunaut Strandamanna í 40 ár.

Á síðasta ári sigraði kona í fyrsta skipti í hrútadómunum við mikinn fögnuð viðstaddra. Þá eru Strandamenn jafnan sérlega áhugasamir um að halda titlinum innan sýslumarkanna, en það hefur reyndar ekki alltaf gengið eftir. Ötulastir við það hafa verið bændurnir á Melum í Árneshreppi, en Kristján Albertsson hefur unnið keppnina fjórum sinnum og Björn Torfason tvisvar. Sumum aðkomumönnum finnst Strandamenn reyndar hafa dálítið forskot í keppninni, vegna þekkingar þeirra á ættum og uppruna hrútanna og líka vegna þess að handföngin (eða hornin) vanti sé miðað við slíka gripi í þeirra heimasveitum.

Þeir sem hafa unnið mótið og þar með Íslandsmeistaratitilinn til þessa eru:

2016: Hadda Borg Björnsdóttir, Þorpum í Strandabyggð

2015: Guðmundur Gunnarsson, Kjarlaksvöllum í Saurbæ

2014: Björn Þormóður Björnsson, Ytra-Hóli í Austur-Húnavatnssýslu

2013: Kristján Albertsson, Melum í Árneshreppi

2012: Kristján Albertsson, Melum í Árneshreppi

2011: Guðbrandur Sverrisson, Bassastöðum í Kaldrananeshreppi

2010: Elvar Stefánsson, Bolungarvík

2009: Guðbrandur Björnsson, Smáhömrum í Strandabyggð

2008: Björn Torfason, Melum í Árneshreppi

2007: Kristján Albertsson, Melum í Árneshreppi

2006: Kristján Albertsson, Melum í Árneshreppi

2005: Björn Þormóður Björnsson, Ytra-Hóli í Austur-Húnavatnssýslu

2004: Eiríkur Helgason, Stykkishólmi, og Björn Sigurvaldason, Litlu-Ásgeirsá í Húnaþingi vestra

2003: Björn Torfason, Melum í Árneshreppi.

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir