Kosið á fjórtán stöðum á Norðurlandi vestra

Í dag ganga landsmenn að kjörborði og kjósa sér fulltrúa í sveitarstjórnir landsins. Valmöguleikarnir eru mismargir, allt frá einum sem þá telst sjálfkjörinn upp í meters langan lista með 16 framboðum líkt og gerist í höfuðborginni okkar. Í landinu er 71 sveitarfélag og eru um 248 þúsund manns á kjörskrá.

Á Norðurlandi vestra bjóða 13 listar fram í fimm sveitarfélögum en að auki er persónukjör í tveimur sveitarfélögum, Akrahreppi og í Skagabyggð. Í Húnaþingi vestra bjóða tveir listar fram, B-listi Framsóknar og annarra framfarasinna og N-listi Nýs afls. Í Húnavatnshreppi bjóða þrír listar fram, A-listi, Listi framtíðar, E-listi Nýs afls og N-listi Nýs framboðs. Á Blönduósi eru listarnir tveir, L-listi, Listi fólksins og Ó-listi Óslistans og á Skagaströnd bjóða fram tveir listar, Ð-listi, Við öll og H-listi, Skagastrandarlistinn. Í Skagafirði stendur valið milli fjögurra lista, B-lista Framsóknarflokks, D-lista Sjálfstæðisflokks, L-lista Byggðalistans og V-lista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og óháðra.

Kjörfundir verða opnir sem hér segir:

Í Húnaþingi vestra opnaði kjörfundur í Félagsheimilinu á Hvammstanga klukkan 9:00 í morgun og stendur hann til 22:00. 

Í Húnavatnshreppi hófst kjörfundur í Húnavallaskóla klukkan 11:00 og er stefnt að því að honum ljúki klukkan 19:00. 

Kjörfundur á Blönduósi hófst klukkan 10:00 í Íþróttamiðstöðinni í norðursal, gengið er inn á móts við Kjörbúðina. Kjörfundi lýkur klukkan 22:00. 

Í Skagabyggð hefst kjörfundur í Skagabúð klukkan 12:00. Stefnt er að því að kjörfundi ljúki kl.17:00. 

Kjörfundur í Sveitarfélaginu Skagaströnd fer fram í Fellsborg og hófst hann klukkan 10:00 og lýkur klukkan 21:00. 

Í Akrahreppi hefst kjörfundur í Héðinsminni klukkan 12 á hádegi.

Í Sveitarfélaginu Skagafirði eru átta kjördeildir:

Í Félagsheimilinu Skagaseli, þar kjósa íbúar fyrrum Skefilstaðahrepps – kjörfundur hefst kl. 12:00.

Í Bóknámshúsi FNV, þar kjósa íbúar Sauðárkróks og fyrrum Skarðs- og Rípurhrepps, kjörfundur hófst kl. 09:00. 

Í Félagsheimilinu Árgarði, þar kjósa íbúar fyrrum Lýtingsstaðahrepps, kjörfundur hefst kl. 12:00.

Í Grunnskólanum að Hólum, þar kjósa íbúar fyrrum Hóla- og Viðvíkurhrepps, kjörfundur hófst kl. 10:00.

Í Höfðaborg Hofsósi, þar kjósa íbúar fyrrum Hofshrepps, kjörfundur hófst kl. 10:00.

Í Grunnskólanum á Sólgörðum, þar kjósa íbúar fyrrum Fljótahrepps, kjörfundur hefst kl 12:00.

Í Varmahlíðarskóla, þar kjósa íbúar fyrrum Staðar – og Seyluhrepps, kjörfundur hófst kl. 10:00.

Í Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki, kjörfundur hófst kl. 13:00.

Kjörfundi má slíta 8 klst. eftir að kjörfundur hefst, enda sé þá hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram, og hvenær sem er ef allir sem á kjörskrá standa hafa greitt atkvæði. 

Kjörfundi má einnig slíta fimm klukkustundum eftir opnun ef öll kjörstjórnin er sammála um það, enda sé þá hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram.

Kjörfundi skal slitið eigi síðar en kl. 22:00

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir