Liðsheildin skilaði þessum sigri - segir Helgi þjálfari

Það var vel fagnað að leik loknum í gærkvöldi. Hér faðmast Helgi þjálfari og Emese Vida og ekki laust við að það séu einhver rykkorn í augum þjálfarans. MYND: DAVÍÐ MÁR
Það var vel fagnað að leik loknum í gærkvöldi. Hér faðmast Helgi þjálfari og Emese Vida og ekki laust við að það séu einhver rykkorn í augum þjálfarans. MYND: DAVÍÐ MÁR

„Þessi leikur var mjög jafn og spennandi allan tímann, algjör naglbítur tveggja góðra liða sem bæði lögðu allt i að vinna,“ sagði Helgi þjálfari Margeirs þegar Feykir bað hann að lýsa leik Tindastóls og Snæfells í gærkvöldi. „Frábær stemning í húsinu en Snæfell var með flotta stuðningsmannasveit og Síkið vel mannað og stuðningsmannasveitin í essinu sínu,“ en samkvæmt leikskýrslu voru um 300 áhorfendur í húsinu sem gerist ekki á hverjum degi í kvennaboltanum.

Lið Tindastóls vann leikinn eftir framlengingu, 82-78, og tryggði sér þannig réttinn til að leika í úrslitaeinvígi þar sem sæti í efstu deild er undir. Andstæðingurinn verður annað hvort lið KR eða Aþenu.

Fólki fyrirgefst sennilega að hafa haldið að þetta væri að ganga okkur úr greipum í byrjun fjórða leikhluta þegar Snæfell var komið með 13 stiga forystu. Hvað gerðist þá? „Við tökum leikhlé og náðum að ráða ráðum okkar, sóttum aggressive á þær og stelpurnar skiluðu góðu verki í vörn og sókn sem kom okkur í framlengingu.“

Hvað skóp þennan sigur? „Liðsheildin skilaði þessum sigri og allar lögðu sitt á vogarskálarnar, hvort sem þær voru á perketinu eða með mér á bekknum. Engin var tilbúin að tapa og við gjörsamlega lögðum allt í þetta.“

Hvað segir það um lið Tindastóls að hafa lagt Subway-deildar lið Snæfells 3-1? „Þetta er risastórt fyrir félagið sem hefur ekki unnið úrslitaseriu á þessari öld. Við erum að byggja upp kvennastarfið hjá okkur og finnst mér félagið og öll umgjörð hjá stjórn og stuðningsmönnum til fyrirmyndar. Nú bíðum við eftir næstu andstæðingum og gerum okkar klárar fyrir það,“ sagði Helgi að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir