Ný lyfta tekin í notkun í Reiðhöllinni

Hér má sjá Guðjón Ólaf Einarsson og Tinnu Rut Sigurbjörnsdóttur á hestbaki, Ingimar Pálsson teymir og með hestinum ganga þær Oddný Ragna Pálmadóttir, starfsmaður Iðjunnar og Inga Dóra Ingimarsdóttir reiðkennari. Myndir: FE
Hér má sjá Guðjón Ólaf Einarsson og Tinnu Rut Sigurbjörnsdóttur á hestbaki, Ingimar Pálsson teymir og með hestinum ganga þær Oddný Ragna Pálmadóttir, starfsmaður Iðjunnar og Inga Dóra Ingimarsdóttir reiðkennari. Myndir: FE

Undanfarin ár, allt frá árinu 2000, hefur Iðja - dagþjónusta staðið fyrir reiðþjálfun fatlaðs fólks sem farið hefur fram í Reiðhöllinni á Sauðárkróki. Frá upphafi hefur Ingimar Pálsson lagt til hross til þjálfunarinnar og undanfarin ár hefur dóttir hans, Inga Dóra, einnig komið að þjálfuninni sem reiðkennari.

Í vetur barst reiðþjálfuninni sannkallað þarfaþing í hendur þegar keypt var lyfta, til þess ætluð að hjálpa einstaklingum sem ekki hafa líkamlega færni til að komast hjálparlaust á bak. Lyftan, sem var tekin í notkun í byrjun febrúar, var keypt fyrir gjafafé frá Sambandi skagfirskra kvenna, Rebekkustúkunni Eir á Sauðárkróki og peningagjöf frá einstaklingum sem ekki vilja láta nafns sín getið. Er þetta að vonum mikil bragarbót sem léttir starfsfólki störfin, minnkar líkamlegt álag þar sem nú þarf ekki lengur að lyfta fólkinu á bak og einnig eykur lyftan öryggi þess til muna.

Jónína Gunnarsdóttir, forstöðumaður Iðju, segir að reiðþjálfuninni sé skipt í tvo hópa og fari hvor þeirra á bak einu sinni í viku. Auk þess nýta nemendur frá grunnskólanum þjálfunina sem Iðjan heldur utan um en nemendum fylgir starfsfólk frá skólanum.

Jónína segir gildi þjálfunarinnar vera margþætt og aðferðin hafi verið notuð víða um heim með athyglisverðum árangri. Þjálfunin gengur í stórum dráttum út á að nýta sér hreyfingar hestsins til að þjálfa upp vöðva og auka jafnvægi og samhæfingu líkamans, bæta líkamsvitund og stuðla að bættri sjálfsmynd og auknu sjálfstrausti. Einnig hefur nálægð hests og manns mikið gildi og þykir íslenski hesturinn sérlega vel fallinn til reiðþjálfunar fatlaðra og ræður þar bæði bygging hans og eðliseiginleikar.

Það voru Viggó Jónsson, stjórnarformaður Flugu, ásamt starfsmönnum Vélaverkstæðis KS sem unnu að uppsetningu lyftunnar og kann Iðjan þeim bestu þakkir fyrir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir