Öruggur sigur og fjórða sætið varð Stólastúlkna

Inga Sigríður Jóhannsdóttir á fullri ferð í gærkvöldi. Hún var með fimm stig og fimm fráköst í leiknum. MYND: SIGURÐUR INGI
Inga Sigríður Jóhannsdóttir á fullri ferð í gærkvöldi. Hún var með fimm stig og fimm fráköst í leiknum. MYND: SIGURÐUR INGI

Það varð ljóst eftir leiki gærkvöldsins í 1. deild kvenna í körfunni að það er lið Snæfells sem Stólastúlkur mæta í úrslitakeppninni. Fyrsti leikur liðanna verður í Stykkishólmi næstkomandi sunnudagskvöld en heimaleikur í Síkinu miðvikudaginn 10. apríl en vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslitaeinvígið. Í gærkvöldi kláraði lið Tindastóls sinn leik gegn b-liði Keflavíkur af miklu öryggi í lokaumferð deildarkeppninnar en lokatölur urðu 81-43. Þetta er í fyrsta sinn á þessari öld sem kvennalið Tindastóls kemst í úrslitakeppni um sæti í efstu deild.

Í leiknum í gær náði lið Tindastóls strax undirtökunum, komst í 8-0 og leiddi með þrjátíu stigum í hálfleik, staðan 46-16. Eftirleikurinn var því formsatriði. Emese Vida var stigahæst með 23 stig og hún hirti 15 fráköst. Okoro gerði 16 stig og Kasapi gerði tíu stig. Hægt er að skoða tölfræði leiksins hér >

Lið Tindastóls var raunar búið að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni fyrir síðustu umferðina en úrslitin í síðustu umferðinni skáru úr um það í hvaða sæti Stólastúlkur enduðu. Það fór svo að lið Hamars/Þórs hreppti efsta sætið í 1. deild þar sem Aþena vann KR í spennuleik. Hamar/Þór hefur því tryggt sér sæti í Subway-deildinni og rétt að óska þeim til hamingju með frábæran árangur í vetur. Aþena hafnaði í öðru sæti með 32 stig líkt og Hamar/Þór en KR og Tindastóll urðu í 3.-4. sæti með 30 stig en KR var með betri stöðu í innbyrðisleikjum liðanna og endaði því í þriðja sæti.

Lið Snæfells bíður Stólastúlkna

Tindastóll mætir því liðinu sem endaði í níunda (næst neðsta) sæti efstu deildar. Lið Snæfells átti mjög erfiða byrjun í Subway-deildinni síðasta haust en hefur styrkst eftir því sem liðið hefur á tímabilið. Það verður fróðlegt að fylgjast með liði Tindastóls í þessu einvígi en það er miður að liðið stríðir við meiðslavesen þessa dagana. Eva Rún fyrirliði, Brynja Líf og Anika voru til dæmis fjarri góðu gamni í gærkvöldi og óvíst hvenær þær verða klárar í slaginn. Helgi þjálfari Margeirs segist heppinn með að hópurinn sé breiður og aðrir leikmenn stígi því upp. „Liðið er núna á mjög góðum stað hvað þetta varðar og liðsheildin góð og markmiðin skýr, það er mikill styrkur í því fyrir okkur farandi inn í úrslitakeppnina,“ segir Helgi.

Hvernig leggst í þig að mæta Snæfelli? „Það leggst mjög vel í mig. Þær eru með öfluga leikmenn og þjálfara sem þekkir þetta allt saman og oft verið mikil stemning á leikjum í Stykkishólmi svo það verður gaman að mæta þeim og mæla okkur við Subwaydeildarlið,“ segir Helgi.

Samkvæmt upplýsingum frá Rúnar Birgi tölfræðimeistara þá þjálfaði Kári Marísson kvennalið Tindastóls frá 1992-1996 og var þá með liðið í efstu (og einu) deild kvennakörfunnar þar sem besti árangurinn var fjórða sæti tímabilið 1993-94. Jill Wilson þjálfaði og spilaði með Stólastúlkum tímabilið 1999-2000 en þá endaði liðið einnig í fjórða sæti. Auk Jill voru máttarstólpar þess liðs leikmenn á borð við Birnu Eiríks, Dúfu Ásbjörns, Halldóru Andrésar. Anítu Sveins og Sólborgu Hermunds. Tölfræði tímabilsins >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir