Skagabyggð verður með í sameiningarviðræðum í Austur-Húnavatnssýslu

Sveitarstjórn Skagabyggðar hefur tekið ákvörðun um að gerast þátttakandi í sameiningarviðræðum sveitarfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu. Skagabyggð bætist því í hóp hinna þriggja sveitarfélaganna í sýslunni sem ákveðið hafa að hefja formlegar viðræður um sameiningu. Reiknað er með að þær viðræður hefjist á næstunni.  Frá þessu var greint á Húna.is í gærkvöldi.

Á fjölmennum íbúafundi í Skagabyggð þann 10. október síðastliðinn var staðan rædd og skýrsla um stöðu og framtíð sveitarfélaga kynnt og jafnframt var lögð fyrir skoðanakönnun meðal íbúa um afstöðu þeirra til viðræðna um sameiningu við önnur sveitarfélög. Í frétt Húna.is kemur fram að meirihluti þeirra sem svöruðu könnununni eru andvígir sameiningu við önnur sveitarfélög. Fleiri töldu það betri kost að sameinast öðrum sveitarfélögum í Austur-Húnavatnssýslu heldur en Sveitarfélaginu Skagafirði.

Í bókun sveitarstjórnar frá 12. október kemur fram að það er álit sveitarstjórnar að sameiningarviðræður geti orðið sveitarfélögum í sýslunni til framdráttar og því tók sveitarstjórn ákvörðun um að gerast aðili að viðræðunum þrátt fyrir að meirihluti þeirra íbúa sem skoðanakönnuninni svöruðu hafi verið andvígir sameiningu.

Í samstarfsnefnd voru tilnefnd þau Vignir Sveinsson, Dagný Rós Úlfarsdóttir og Magnús Björnsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir