Skóflustunga tekin að gagnaveri við Blönduós

Fyrstu skóflustungurnar teknar. F.v. Björn Brynjúlfsson, framkvæmdastjóri Borealis Data Center, Arnar Þór Sævarsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Blönduósi, Guðmundur Haukur Jakobsson, formaður byggðaráðs Blönduósbæjar og Ásmundur Einar Daðason, félags og jafnréttisráðherra. Mynd: FE
Fyrstu skóflustungurnar teknar. F.v. Björn Brynjúlfsson, framkvæmdastjóri Borealis Data Center, Arnar Þór Sævarsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Blönduósi, Guðmundur Haukur Jakobsson, formaður byggðaráðs Blönduósbæjar og Ásmundur Einar Daðason, félags og jafnréttisráðherra. Mynd: FE

 Í dag var tekin fyrsta skóflustungan að gagnaveri sem rísa mun við Svínvetningabraut á Blönduósi og á að hýsa starfsemi hýsingarfyrirtækisins Borelias Data Center eh. Það voru fjórir vasklegir menn sem munduðu skóflurnar, þeir Arnar Þór Sævarsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Blönduósi, Ásmundur Einar Daðason, félags og jafnréttisráðherra, Björn Brynjúlfsson, framkvæmdastjóri Borealis Data Center og Guðmundur Haukur Jakobsson, formaður byggðaráðs Blönduósbæjar.

Valgarður Hilmarsson, sveitarstjóri Bönduósbæjar. Mynd:FE

Valgarður Hilmarsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar, ávarpaði gesti í upphafi athafnarinnar og lýsti ánægju sinni með að þetta langþráða verkefni væri nú loks að líta dagsins ljós en það munu vera meira en tíu ár síðan fyrst var farið að líta til þess möguleika að gagnaver yrði reist á Blönduósi. Að athöfninni lokinni var boðið upp á veitingar í Félagsheimilinu á Blönduósi.

Reiknað er með að framkvæmdahraði við byggingu hússins verði mikill og það verði fullbúið í júlí. Húsið sem nú verður byggt er 640 m2 og kostnaður við byggingu þess er áætlaður 150 milljónir króna. Fleiri hús munu svo rísa í kjölfarið. Að sögn Valgarðs Hilmarssonar sveitarstjóra munu nokkur störf fylgja hinu nýja gagnaveri og eins sé ljóst að allmörg afleidd störf muni skapast. 

Tengdar fréttir: 

Fyrsta skóflustungan tekin að gagnaveri í næstu viku,

Borealis Data Center sækir um lóð fyrir gagnaver á Blönduósi,

30 ný störf gætu skapast á Blönduósi,

Fundað um hugsanlegt gagnaver á Blönduósi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir