Snjódýpt í Fljótum yfir meter að jafnaði

Fljótin eru full af snjó. Sumardagurinn fyrsti er svo eftir viku...  MYNDIR: HALLDÓR GUNNAR
Fljótin eru full af snjó. Sumardagurinn fyrsti er svo eftir viku... MYNDIR: HALLDÓR GUNNAR

„Tíðarfarið hefur verið nokkuð óvenjulegt frá 21. mars en allar helgar síðan þá hafa skollið á norðan stórhríðir en lítill snjór var annars þennan vetur,“ segir Halldór Gunnar Hálfdansson, bóndi á Molastöðum í Fljótum en hann sér einnig um skólaakstur í sveitinni. Halldór bætir við að það sé nokkuð óvenjulegt að fá svona mikinn snjó seint og segir að yfirleitt þegar snjóþungt sé í Fljótum hafi sá snjór verið að safnast allan veturinn, oft frá því í október.

Hverjar hafa verið helstu áskoranirnar vegna færðar og veðurs að undanförnu? „Helstu áskoranirnar eru samgöngur, bæði þarf að koma skólabörnum í Grunnskólann austan Vatna á Hofsósi auk þess sem íbúar Fljótanna sækja vinnu bæði til Siglufjarðar og innan héraðs. Á hótelinu á Deplum þarf að koma tugum starfsmanna og gesta til og frá vinnu á hverjum degi einnig. Öll vinna kringum gegningar, svo sem að sækja rúllur, verður erfiðari og girðingar fara á kaf og útigangur getur farið á flakk,“ segir Halldór og bætir við að auk þess þurfi að sækja mjólk á eina kúabúið sem er starfrækt í sveitinni.

Girðingar ofan á girðingum

Hafa bændur í Fljótum áhyggjur af sumrinu? „Fljótamenn eru ágætlega búnir undir sauðburð við erfiðar aðstæður þar sem sveitin er snjóþung en við höfum sloppið vel síðustu þrjú vor. Þessi snjór getur farið fljótt þar sem hann er svo nýr. Kal er sjaldgæft í sveitinni en jörð fór reyndar frosin undir snjó og erfitt er að segja hvað er að gerast undir snjónum.“

Halldór telur að snjódýpt sé vel yfir meter að jafnaði og sums staðar mun meiri. Hann segist á nokkrum stöðum hafa þurft að girða rafmagnsgirðingu ofan á aðra girðingu og á nokkrum stöðum sé efri girðingin komin á kaf í snjó. „Snjórinn verndar gróðurinn í fjöllunum fyrir foki og veðrun og eitt er víst að vatnsbúskapur verður með betra lagi þegar allur flaumurinn bráðnar og rennur niður fjöllin. Það kætir bæði bændur og vélstjórann í Skeiðsfossvirkjun sem safnar hlæjandi í uppistöðulón virkjunarinnar,“ segir Halldór eldhress í lokin.

Ætti að fara hlýnandi um og upp úr helgi

Enn er spáð kuldatíð þessa vikuna en um og upp úr helgi er útlit fyrir að það fari að hlýna þó að sjálfsögðu beri veðurspám ekki saman um það. Í frétt á Rúv.is í gær segir að þaulsetin hæð yfir Grænlandi hafi valdið köldustu aprílbyrjun aldarinnar hér Íslandi. Óli Þór Árnason veðurfræðingur segir nánast árvisst að hæð myndist yfir Grænlandi seinni hluta vetrar. Fjölmargir þættir hafi áhrif á hve lengi hún vari þar.

„Það er ekkert óalgengt heldur að það myndist lægð líka svona seint að vori. Bændur fyrir norðan vita það vel að það vel að það getur verið ansi köld norðanáttin út maímánuð og fram í júní þess vegna. Kannski er ágætt að hún kom núna en ekki eftir mánuð,“ segir Óli Þór og finnur þar með ljósið í myrkrinu.

Myndirnar hér að neðan tók Halldór Gunnar í þessu síðbúna vetrarveðri í Fljótumum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir