Starfsfólk SSV heimsótti kollegana í SSNV

Starfsfólk SSNV og SSV kampakátt í gömlu kirkjunni á Blönduósi þar sem hægt er að kaupa sér gistingu í gegnum Hótel Blönduós. MYND AF SSNV.IS
Starfsfólk SSNV og SSV kampakátt í gömlu kirkjunni á Blönduósi þar sem hægt er að kaupa sér gistingu í gegnum Hótel Blönduós. MYND AF SSNV.IS

Sagt er frá því á heimasíðu SSNV að starfsfólk frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi hafi heimsótt starfssystkini sín á Norðurlandi vestra nú í vikunni. „Við áttum tvo góða og skemmtilega daga saman þar sem við ræktuðum tengsl og ræddum saman um verkefni og áskoranir landshlutasamtaka,“ segir í fréttinni.

Fyrri daginn var farið vítt og breitt um Skagafjörð þar sem m.a. var kíkt í heimsókn í Byggðastofnun. „Þar var rætt um samstarf okkar á milli ásamt því að fara yfir starfsemi stofnunarinnar. Seinna um daginn fengum við kynningar frá tveimur nýsköpunarverkefnum af Norðurlandi vestra, Amber frá Ísponica og Völu frá Kaffikorg í nýju húsnæði Ísponica á Hofsósi.“

Seinni daginn lá leiðin yfir í Húnavatnssýslur en á Blönduósi var uppbyggingu gamla bæjarins kynnt fyrir gestunum. „Glæsilegt verkefni og verður gaman að fylgjast með áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu um komandi ár. Þar á eftir fórum við á Hvammstanga þar sem við héldum saman vinnustofu. Þar ræddum við nokkur verkefni beggja landshlutasamtaka og gerð nýrrar sóknaráætlunar.“

Það er alltaf gott að hitta kollega okkar frá öðrum landshlutasamtökum, bera saman bækur og eiga samtal um það hvernig við getum styrkt sambandið á milli samtaka enn betur,“ segir loks í fréttinni.

Þess má geta að höfuðstöðvar SSV eru í Borgarnesi en starfsvæðið er frá Akranesi í suðri og upp í Dalasýslu í norðri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir