Uppstigningardagur á Blönduósi

Blönduós. Mynd: Northwest.is
Blönduós. Mynd: Northwest.is

Blönduóssbúar ættu að geta haft nóg fyrir stafni á morgun, uppstigningardag.

Fyrst ber að nefna að Blönduósbær efnir til tiltektardags þar sem bæjarbúar og fyrirtæki eru hvött til að taka til í sínu nánasta umhverfi. Af því tilefni verður gámasvæðið með opið milli kl. 13 og 17. Að tiltekt lokinni er bæjarbúum boðið að mæta við Félagsheimilið þar sem sveitarstjórn ætlar að grilla fyrir bæjarbúa.

Í Blönduskóla verður haldin sýning á verkum nemenda sem þeir hafa unnið í vetur. Sýningin verður í Nýja skóla og verður hún opin frá kl. 13-15. Flest verkin á sýningunni hafa verið unnin í smiðjum og valfögum í myndlist og textílmennt en einnig verða til sýnis einstaka verkefni sem nemendur hafa unnið í öðrum fögum.

Þá verður guðþjónusta í Blönduósskirkju kl 16:00 í tilefni af degi aldraðra. Þar mun dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson flytja hugvekju dagsins og að guðsþjónustu lokinni flytur hann fyrirlestur í safnaðarheimili Blönduósskirkju um Martein Lúther og lífshamingjuna.

Það ætti því engum Blönduósingum að þurfa að leiðast á morgun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir