Veðrið um Verslunarmannahelgina

Hitakort fyrir laugardaginn/Mynd: Vedur.is
Hitakort fyrir laugardaginn/Mynd: Vedur.is

Ekki er beint hægt að tala um að veðrið muni leika við landsmenn um Verslunarmannahelgina ef marka má veðurspá Veðurstofu Íslands, með undantekningum þó. 

Nú eru margir landsmenn farnir að undirbúa sig fyrir mestu ferðahelgi ársins og er að mörgu að huga. Flestir eru sjálfsagt búnir að ákveða hvert skal haldið en sumir ætla að láta veðrið ráða för.
Á föstudag og laugardag er búist við norðlægum áttum, 5-13 metrum á sekúndu og rigningu norðaustan og austanlands. Norðvestantil verður úrkomulítið en nokkuð bjart annarsstaðar. Þó eru líkur á síðdegisskúrum, einkum í uppsveitum. Hitinn verður 7 – 19 stig, heitast sunnanlands.

Spáin fyrir sunnudaginn er lítið öðruvísi, áframhaldandi norðlæg átt, súld eða rigning við norðurströndina en úrkomulítið annars en dálitlir skúrir sunnanlands. Þá kólnar heldur í veðri.

Það er því víst að betra er að taka með sér teppið, ullarpeysuna og regnhlífina, til að vera við öllu búinn, nema þeir sem ætla í borgina, þeir taka með sér sólarvörnina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir