Vel mætt á íbúafund um gamla bæinn á Króknum

Góð mæting var á fundinn um verndarsvæði í byggð í Húsi frítímans. Mynd: Skagafjörður.is.
Góð mæting var á fundinn um verndarsvæði í byggð í Húsi frítímans. Mynd: Skagafjörður.is.

Íbúafundur var haldinn í fundarsal Svf. Skagafjarðar í Húsi frítímans í gær, 21. nóvember, um verkefnið verndarsvæði í byggð. Þar voru kynntar tillögur að verndun gamla bæjarins á Sauðárkróki.

Á heimasíðu sveitarfélagsins segir að Viggó Jónsson formaður Skipulags- og byggingarnefndar hafi sett fund og boðið fundarmenn velkomna. Ásta Pálmadóttir sveitarstjóri stýrði fundi.

Guðmundur St. Sigurðarson minjavörður Norðurlands vestra, fulltrúi Minjastofnunar, flutti fróðlegt erindi um verkefnið Verndarsvæði í byggð á landsvísu. Hann gerði grein fyrir þeim lagaramma sem verkefnið byggir á og skýrði helstu markmið þess.

Sólveig Olga Sigurðardóttir starfsmaður verkefnisins gerði grein fyrir stöðu þess í heimabyggð. Sú vinna hefur, enn sem komið er, mest verið heimildaöflun, minjaskráning og rýni í kort og myndir. Markmiðið er að á vordögum næsta árs liggi fyrir mótuð verndartillaga fyrir nyrðri hluta „gamla bæjarins“.

Fundurinn var vel sóttur og voru málefnalegar fyrirspurnir og umræður að loknum framsöguerindum. Áhugasamir   íbúar sem gætu gefið upplýsingar eða vilja kynna sér verkefnið betur eru hvattir til að hafa samband við starfsmenn verkefnisins á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga.  Einn af áherslupunktum verkefnisins er samráð við íbúana.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir