Axel Arnarsson að gera góða hluti í pílu

Dalvíkingurinn Ægir og Axel Arnarsson. Myndir teknar af Facebook-síðu Pílukastfélags Skagafjarðar.
Dalvíkingurinn Ægir og Axel Arnarsson. Myndir teknar af Facebook-síðu Pílukastfélags Skagafjarðar.

Á Facebook-síðu Pílukastfélags Skagafjarðar segir að fyrsta umferð DARTUNG, mótaröð fyrir börn og unglinga á aldrinum níu til átján ára, fór fram í aðstöðu Pílufélags Kópavogs í íþróttamiðstöðinni Digranesi laugardaginn 10. febrúar. Pílukastfélag Skagafjarðar átti þar tvo fulltrúa, Axel Arnarsson og Kjartan Arnarsson. Nýtt met var slegið í skráningum en 40 börn og unglingar tóku þátt í þessu fyrsta móti ársins en 2. umferð fer fram 6. apríl í aðstöðu Píludeildar Þórs á Akureyri. Bæði Kjartan og Axel stóðu sig mjög vel en Axel Arnarsson keppti í drengjaflokki 14-18 ára og gerði sér lítið fyrir og fór alla leið í úrslit og endaði í 2. sæti. Það var Dalvíkingurinn Ægir Eyfjörð Gunnþórsson sem sigraði Axel Arnarsson 4-2 í úrslitaleiknum en til gamans má geta að þetta er fyrsta mótið hans Axels. 

Á sunnudaginn var fór svo fram 2. umferð í Floridana deildinni og voru yfir 50 manns skráðir. Á þessu móti skiptir ekki máli hvort þú sért að byrja í pílukasti eða hefur verið að kasta í mörg ár. Mótið er stillt upp þannig að spilað er við aðila á sama getustigi. Tilvalið fyrir nýja píluspilara að skrá sig til leiks og prófa. Pílukastfélag Skagafjarðar átti sex leikmenn skráða á þessu móti, þá Arnar Má, Ingva, Jón Odd, Albert, Einar og Júlíus. Arnar Már og Júlíus sigruðu sínar deildir með glæsibrag, Arnar vann silfurdeildina og var haldin í Reykjavík og Júlíus vann bronsdeildina sem var haldin á Akureyri. Frábær árangur hjá félögum PKS.

 

Þá var fyrsta mótið í Kaffi Króks mótaröðinni 2024 hjá Pílukastfélaginu í vikunni og voru 18 þátttakendur skráðir til leiks. Spilað var í þremur deildum og í fyrstu deildinni vann Þórður Ingi Pálmarsson, í annarri deildinni vann, hinn ungi og efnilegi, Axel Arnarsson og í þriðju deildina vann Hallbjörn Björnsson. Hæsta útskot kvöldsins átti Arnar Geir Hjartarson sem tók út 150.

       

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir