Jordyn Rhodes er spennandi framherji

Jordyn Rhodes fagnar marki. MYND AF INSTAGRAM
Jordyn Rhodes fagnar marki. MYND AF INSTAGRAM

Eins og sagt var frá á dögunum þá verða breytingar í framlínu Tindastóls í Bestu deildinni í sumar þar sem Murr hverfur á braut eftir ansi gjöful og góð ár á Króknum. Í vikunni var síðan tilkynnt um hvaða stúlka það er sem fetar í fótspor Murr en það er ansi spennandi leikmaður, Jordyn Rhodes, sem kemur til Tindastóls frá University of Kentucky þar sem hún lék vel.

„Jordyn er mjög spennandi framherji sem kemur beint úr háskólaboltanum. Hun var mjög eftirsótt eftir frábær ár þar en var strax mjög spennt fyrir því að koma á Krókinn og hjálpa okkur i þeirri skemmtilegu barráttu sem framundan er i sumar,“ sagði Donni þjálfari í samtali við Feykir. „Jordyn er fljót, sterk og með mikið markanef. Hún hefur skorað mörg mörk i gegnum tíðina og lagt upp. Hún kemur til okkar um miðjan febrûar mánuð og við hlökkum mikið til að fá hana til okkar,“ segir hann en upplýsingar um Jordyn má sjá hér.

Donni segist mjög ánægður með leikmenn liðsins hingað til á þessu undirbúningstímabili og það gefi góð fyrirheit fyrir sumarið.

Er enn verið að leita að leikmönnum til að styrkja hópinn fyrir átök sumarsins? „Já, við erum með augu og eyru opin að leita af öflugum leikmanni/leikmönnum, kannski 1-2 i viðbót. Annars erum við líka að taka stöðuna á þeim leikmönnum sem eru fyrir og vonast til að sem flestar verði tilbúnar i þessa krefjandi deild.“

Varstu ánægður með að fá Gwen og Monicu, sem voru nýir erlendir leikmenn með Stólastúlkum síðasta sumar, til að koma aftur á Krókinn? „Já, ég er mjög ánægður með að fá þær aftur og vænti mikils af þeim aftur og jafnvel enn meira núna heldur en i fyrra þar sem nú eru þær með aðeins meiri reynslu af deildinni – en einnig af liðinu okkar og umhverfinu,“ segir Donni að lokum.

Hér er pínu sýnishorn af flottum töktum hjá Jordyn >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir