„Litla sveitastúlkan“ fékk ekki Óskarinn

Pavel og Dagur Þór. MYNDIR: DAVÍÐ MÁR
Pavel og Dagur Þór. MYNDIR: DAVÍÐ MÁR

Val á Íþróttamanni ársins 2023 fór fram á Hilton hótelinu í Reykjavík í gærkvöldi. Tíu íþróttamenn voru tilnefndir og var það handboltakappinn Gísli Þorgeir Kristjánsson sem fór heim með verðlaunagripinn eftirsótta, sigraði kosningu íþróttafréttamanna með nokkrum yfirburðum og er vel að heiðrinum kominn. Dagur Þór Baldvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls, og Pavel Ermolinski, þjálfari karlaliðs Tindastóls, voru á staðnum enda Pavel tilnefndur sem þjálfari ársins og meistaralið Tindastóls sem lið ársins.

Í skemmtilegu spjalli í upphafi beinnar útsendingar frá viðburðinum í Sjónvarpi allra landsmanna þá líkti Pavel veru þeirra félaga við að litla sveitastelpan væri mætt til Hollywood á Óskarinn. Það mátti skilja hann sem svo að það væri langsótt að Stólastrákarnir hlytu verðlaunin í þetta sinn en engu að síður skemmtilegt ævintýri.

Það fór svo að Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings í fótboltanum, og karlalið Víkings hlutu verðlaunin en lið Víkings hafði mikla yfirburði í Bestu deildinni sl. sumar og úrslitin komu því í raun ekki á óvart.

Alvaran tekur svo við í kvöld þegar lið Álftaness mætir í Síkið í 12. umferð Subway-deildarinnar. Liðin eru jöfn að stigum, hafa bæði 14 stig eftir að hafa unnið sjö leiki en tapað fjórum í fyrri umferðinni. Þetta er því mikilvægur leikur og stuðningsmenn hvattir til að fjölmenna í Síkið. Leikurinn hefst kl. 19:15 – áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir