Pavel þjálfari ársins í Skagafirði

Pavel með Gunnari Þór Gestssyni formanni UMSS. MYND AÐSEND
Pavel með Gunnari Þór Gestssyni formanni UMSS. MYND AÐSEND

Pavel Ermolinski var á dögunum valinn þjálfari ársins í Skagafirði við hátíðlega athöfn í Ljósheimum. Eins og alþjóð sennilega veit þjálfar hann sitjandi Íslandsmeistara Tindastóls í körfubolta og við getum sagt að þeir séu um það bil hálfnaðir í því verkefni að sitja áfram á þeim titli. Engin pressa. Blaðamaður hafði samband við Pavel sem segir þetta frábæra viðurkenninu fyrir sig og allt þjálfarateymið og bætir við að það sé ekki flókið að þjálfa þennan mannskap með þetta bakland sem er í kringum liðið.

Nú er hægt að segja að seinni hálfleikur sé að hefjast á tímabilinu, spenntur? „Það er mikil tilhlökkun hjá mér og liðinu að takast á við sinni part tímabilsins. Halda áfram að bæta sig og finna stigvaxandi spennu sem mun myndast í Síkinu. Allir vilja fara í þetta sama ferðalag sem liðið og allt samfélagið gekk í gegnum í fyrra,“ segir Pavel.

Þegar Pavel er spurður hvað Tindastóll sé, stendur ekki á svari, „gleði, vinnusemi og algjört sameiningartákn Skagafjarðar. Félag sem Skagfirðingar styðja af einlægni og fullum hug.

En hvað er Skagafjörður? Pavel segir gildi Skagafjarðar endurspeglast að miklu leyti í Tindastól og öfugt. Gleði, dugnaður og samheldni. Gott og vinnusamt fólk sem stendur saman og gleðst saman. Frábært dæmi um kosti þess að búa út á landi. Það er auðvelt að taka undir þessi orð með Pavel.

Var það erfið ákvörðun að halda áfram að þjálfa Tindastól og flytja út á land? „Nei, hún var tiltölulega einföld. Eftir stutta veru okkar hérna í vor var þetta ekki langt samtal á heimilinu og við sjáum ekki eftir ákvörðun okkar. Við höfum komið okkur vel fyrir og líður mjög vel.“

Hvað er það sem gerir körfubolta svona skemmtilegan? „Þetta er hraður og sveiflukenndur leikur sem ræðst á 40 mín. Sem oftast verða mjög sveiflukenndar. Það er alltaf eitthvað óvænt sem getur gerst. Það þarf ekki mikinn skilning á íþróttinni til þess að njóta hennar. Tvö lið að reyna að koma boltanum til skiptis í körfu andstæðingsins sem eru að verja hana. Inn á milli eru falleg tilþrif eða hreinlega einskær barátta milli manna sem skapar ákveðið andrúmsloft.“

En er Pavel hættur að spila eða tekur hann æfingu með strákunum? „Ég læt af og til plata mig í bumbubolta í hádeginu. Stundum dett ég inn í skotleiki á æfingum sem svalar einhverri keppnisþörf.“

Pavel og fjölskyldan fóru suður um jólin til þess að vera nær fólkinu sínu þar, en ætla að vera heima á Króknum um áramótin og hann endar á að segja „ef ég á að vera hreinskilin býst ég við alvöru flugeldasýningu því að þetta Skagfirska keppnisskap hlítur að koma fram í hver sprengir best og mest. Sem eru frábær lokaorð inn í komandi áramótahelgi, um leið og við óskum Pavel innilega til hamingju með þjálfra ársins titilinn og að sjálfsögðu nýs körfuboltaárs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir