Tveir sigurleikir í röð hjá meistaraflokki kvenna

Brynja Líf. MYND: DAVÍÐ MÁR
Brynja Líf. MYND: DAVÍÐ MÁR

Meistaraflokkur kvenna tók á móti ungmennaflokki Stjörnunnar í Síkinu, föstudaginn 1. mars, og spiluðu svo við ungmennaflokk Keflavíkur, miðvikudaginn 6. mars, í Keflavík. Stólastúlkur gerður sér lítið fyrir og hirtu öll þau stig sem í pottinum voru og unnu báða leikina mjög sannfærandi. 

Það var nokkuð ljós fyrir leikinn á móti Stjörnunni að þetta yrði frekar auðveldur sigur. Þessi lið hafa spilað á móti hvort öðru tvisvar sinnum áður í vetur og fór fyrsti leikurinn 85-65, annar leikurinn fór 100-59 og svo endaði leikur á föstudaginn 100-39.

Gaman var að sjá að stigahæsti leikmaðurinn hjá Stólastúlkum var að þessu sinni Klara Sólveig en hún setti niður 22 stig og átti nokkrar fallegar 3ja stiga körfur. Næst á eftir henni var Ifunanya Okoro með 16 stig, Emese Vida var með 13 stig, Inga Sigríður með 12 stig, Brynja Líf 11 stig, Andriana Kasapi og Eva Rún voru með átta stig hvor. Þá var yngsti leikmaðurinn í liðinu, Emma Katrín, með fimm stig, Inga Sigurðar. og Kristín Einars. voru með tvö stig hvor og Rannveig Guðmunds. var með eitt stig. Þessar tölur sýna að bæði ungu stelpurnar og bekkurinn hafi fengið stærra hlutverk í leiknum og var ekki annað að sjá en að þær hafi staðið sig allar frábærlega því lítið sást til erlendu leikmannanna í seinni hálfleik.

Leikurinn á móti Keflavík var leikur sem spila átti í byrjun febrúar en var frestað. Þessi lið hafa spilað tvisvar sinnum á móti hvort öðru og hafa leikar farið þannig að Tindastóll vann báða leikina, þann fyrri 75-54 og á miðvikudaginn fór hann 86-50. Þessi lið mætast svo í þriðja og síðasta skiptið þann 2. apríl nk.

Stig Stólastúlkna skiptust þannig að Emese Vida var stigahæst með 19 stig, Rannveig Guðmundsdóttir var með 12 stig, Andriana Kasapi var með 11 stig, Ifunanya Okoro og Klara Sólveig voru með tíu stig hvor, Brynja Líf átta stig, Eva Rún var með sex stig og svo voru Inga Sigurðar og Inga Sigríður með fimm stig hvor.

Til hamingju stelpur með glæsilegan árangur. Þær sitja núna í 4. sæti með 24 stig en Hamar/Þór eru einnig með 24 stig en sitja í 3. sæti. Það eru einungis fjórir leikir eftir hjá stelpunum en næsti leikur er á móti Ármanni, sunnudaginn 10. mars kl. 18:00, í Síkinu.  

Áfram Tindastóll! 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir