Bíður spennt eftir Fljótagöngum

Stefanía Hjördís við Mývatn skömmu fyrir jól. AÐSEND MYND
Stefanía Hjördís við Mývatn skömmu fyrir jól. AÐSEND MYND

Enn er Feykir að rótast í að plata fólk til að gera upp árið sitt með lesendum. Að þessu sinni er það Stefanía Hjördís Leifsdóttir á Brúnastöðum í Fljótum sem höndlar uppgjörið. Hún er bóndi og ferðaþjónustubóndi en ábúendur á Brúnastöðum eru m.a. með húsdýragarð og standa í geitaostagerð svo eitthvað sé nefnt. Hún bíður spennt eftir Fljótagöngum.

Hver er maður ársins? – Manneskja ársins er að mínu mati sú sem sinnir sjállfboðaliðsstörfum. Sá sem ver endalausum tíma í að koma öðrum til aðstoðar án þess að vænta nokkurs í staðinn, ég ber mikla virðingu fyrir slíku fólki.

Hver var uppgötvun ársins? – Við fjölskyldan fengum okkur rafmagnsbíl um síðustu áramót. Ætli uppgvötvun ársins hafi ekki verið sú hversu frábært er að eiga slíkan bíl.

Hvað var lag ársins? – Áfram stelpur sem Una Torfa söng á Arnarhóli í tilefni kvennafrídagsins þar sem um 100.000 konur tóku undir. Gæsahúð.

Hvað gerðirðu ekki á árinu sem þú ætlaðir þér að gera? – Ég ætlaði í viðamiklar framkvæmdir í ferðaþjónustunni en vaxtarstigið í landinu sá til þess að þær hugmyndir voru settar á ís.

Hvers er eftirminnilegast frá árinu 2023? – Samverustundir með fjölskyldu og vinum. Ógleymanleg Parísarferð með eiginmanni og börnum. Frábært garðpartí til að fagna útskrift eins af sonunum úr HÍ, dansað inn í sumarnóttina sem er hvergi fallegri en í Fljótunum.

Hvaða þrjú orð lýsa árinu best – af hverju? – Hjá mér persónulega er bjart yfir árinu 2023. Velgengni, samvera og samvinna lýsa því best. Á svo frábæra og samhenta fjölskyldu sem er til í að hjálpa til við alls konar verkefni og ekki síst að njóta litlu en góðu stundanna saman.

Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? – Innrás Ísraea í Palestínu, grimmd og mannvonska nær nýjum lágpunkti.

Hvað viltu sjá gerast árið 2024? – Vildi gjarna sjá að ákvörðun verði tekin um hvenær á að ráðast í Fljótagöngin. Er afskaplega spent fyrir þeirri framkvæmd.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir