Malen gefur út nýtt lag

Right? Nýja lagið hennar Malenar. MYND AÐSEND
Right? Nýja lagið hennar Malenar. MYND AÐSEND

Malen Áskelsdóttir, sem við þurfum nú ekki að kynna fyrir fólki, er að gefa út nýtt lag á öllum helstu streymisveitum, núna næstkomandi föstudag. Lagið „Right?“ samdi hún fyrir rúmu ári síðan. Upptökuferlið byrjaði svo í maí á þessu ári og tók nokkra mánuði. Malen samdi lag og texta og það var Baldvin Hlynsson sem útsetti lagið með henni og sá um hljóðblöndun.

Lagið var tekið upp í stúdóinu hans Baldvins í miðbæ Reykjavíkur ásamt frábæru tónlistarfólki. „Söngkonan Raven söng lagið með mér, Jón Arnar sem er leiðari básúnudeildar Sinfó spilaði á básúnu og Kristinn Þór, sem hefur til dæmis unnið mikið með hljómsveitinni Hipsumhaps, spilaði á gítar,“ segir Malen.

En hvernig kom samstafið við Baldvin og Raven til? „Ég byrjaði að vinna með Baldvini fyrir tveimur árum þegar ég var að taka upp mína fyrstu plötu og langaði að finna fleira tónlistarfólk til þess að vinna með. Í dag hefur hann, liggur við, unnið með öllu helsta tónlistarfólki landsins, en á þessum tíma hafði ég ekki heyrt um hann þangað til ég komst að því að hann var búinn að vinna með söngkonunni Kristínu Sesselju. Mér fannst þau búin að vera að gera flotta hluti svo ég ákvað að bara að senda honum skilaboð á Instagram og hann var opinn fyrir því að vinna með mér. Mér fannst við vinna vel saman og ég endaði á því að taka upp tvö lög á plötunni með honum og svo héldum við áfram að vinna saman eftir að platan kom út,“ segir Malen.

„Hrafnhildur Magnea, eða Raven, var að útskrifast með háskólagráðu í söng fyrr á þessu ári í Amsterdam. Hún hefur verið að koma fram og gefa út lög í einhver ár, sem eflaust mörg ykkar hafið heyrt í útvarpinu. Svo ég hef lengi vitað af henni, við eigum marga sameiginlega vini og ég man að hún hjálpaði mér aðeins áður en ég fór í söngnám í Köben árið 2019. Þá var hún búin að fara í sama nám. Ég hef lengi litið upp til hennar sem söngkonu, texta- og lagahöfundar, svo það er algjör draumur að hafa fengið hana til að syngja þetta lag með mér, “ segir Malen.

Hvernig verður lag eins og þetta til?  „Ég bjó til sögu í hausnum mínum þegar ég samdi þetta lag og reyndar líka næsta lag sem ég mun gefa út. Sagan er um reynslu tveggja einstaklinga og lögin tvö eru skrifuð frá sitthvoru sjónarhorni þeirra. Ég myndi segja að lagið „Right?“ fjalli aðallega um efasemdir og nafnið á laginu er spurningin „Right?,“ eða á íslensku „er það ekki ?.“

Það er ekki hægt að sleppa því að forvitanst aðeins um hvort það sé eitthvað meira á döfunni í tónlistinni hjá Malen. „Það að búa til tónlist er eitt af því skemmtilegasta sem ég geri og mér finnst að markmiðið hjá öllum ætti að vera að gera það sem þeim finnst skemmtilegt, svo það er markmiðið mitt að halda áfram að búa til tónlist. Ég vona líka að ég haldi áfram að kynnast nýju tónlistarfólki, mér finnst það gaman og ég held að það gætu alls konar hugmyndir, innblástur og tækifæri fæðst við það. Ég mun klárlega halda áfram að syngja og halda tónleika. Undanfarið hefur mér líka fundist spennandi að búa til tónlist fyrir aðra artista og jafnvel fyrir sjónvarpsefni eða auglýsingar, svo kannski á sú pæling eftir að fara ennþá lengra.“ Það gefur auga leið að þessi unga og frábæra tónlistarkona er bara rétt að byrja og hvetjum alla til að fylgjast með þegar nýja lagið kemur út. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir