Hannah Cade kvödd með virktum

Hannah Cade kvödd. Í bakgrunni eru Donni þjálfari og Stólastúlkur og gefa henni gott klapp. MYND: ÓAB
Hannah Cade kvödd. Í bakgrunni eru Donni þjálfari og Stólastúlkur og gefa henni gott klapp. MYND: ÓAB

Það var falleg stund að leik loknum hjá Stólastúlkum á laugardaginn þegar Donni tilkynnti stuðningsmönnum að Hannah Jane Cade hefði verið að spila sinn síðasta leik fyrir lið Tindastóls. Hún var að klára sitt annað tímabil á Króknum, fór með liðinu upp úr Lengjudeildinni síðasta sumar og spilaði stóra rullu í að halda liðinu í Bestu deildinni í sumar.

Hún er smá en ansi kná, full af dugnaði og jákvæðni. Hennar hlutverk var jafnan sem djúpur miðjumaður og lék Hannah 43 leiki í deild og bikar með liði Tindastóls og skoraði sjö mörk. „Við eigum eftir að sjá mikið á eftir henni því hún hefur verið hreint stórkostleg fyrir okkur, bæði innan sem utan vallar. Hannah er algerlega magnaður leikmaður og frábær liðsfélagi og hefur gert ótrúlega vel hér á Íslandi sem leikmaður. Við eigum eftir að sakna hennar mikið en vonum að allt gangi sem allra best hjá henni,“ sagði Donni þjálfari Stólastúlkna í viðtali við Feyki í gær. Það var því rétt að leggja nokkrar spurningar fyrir Hönnuh.

Þú ert búin að kveðja lið Tindastóls Hannah, hvað stendur til? „Ég ætla að hefja læknisfræðinám í Bandaríkjunum til að verða fóta- og ökklalæknir, svo í bili er ég að leggja takkaskóna á hilluna.“

Áttirðu góðan tíma með liði Tindastóls? „Tíminn minn hjá Tindastóli hefur verið stórkostleg upplifun og ég er svo þakklát fyrir tækifærið sem Donni gaf mér að spila hér með þessum sérstaka hópi stúlkna. Hér eignaðist ég ævilanga vini og ég mun minnast þessara síðustu tveggja sögulegu tímabila að eilífu!“

Hvað stendur upp úr hjá þér frá þessum tíma? „Stelpurnar í þessu liði og það ótrúlega samfélag stuðningsmanna sem við eigum stendur upp úr. Við höfum afrekað svo margt sem hópur, þrátt fyrir margar hindranir, og ég er svo stolt af því að hafa verið hluti af því.“

Að lokum þakkar Hannah öllu Tindastólsfólki fyrir að taka á móti sér opnum örmum. „Allt frá liðsfélögum mínum til krakkanna sem ég hjálpaði að þjálfa, til allra annarra í fótboltasamfélaginu, þið hafið haft svo ótrúleg áhrif á líf mitt. Ég veit að ég mun alltaf eiga fjölskyldu á Sauðárkróki og það skiptir mig heilmiklu máli. Ég veit líka að þessi hópur er fær um svo ótrúlega hluti og ég get ekki beðið eftir að sjá allt sem liðið áorkar í framtíðinni! Áfram Stólar!“

Takk fyrir frábæran tíma Hannah.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir