Karólína í Hvammshlíð valin Maður ársins 2023 á Norðurlandi vestra

Karólína í Hvammshlíð á sumardegi. AÐSEND MYND
Karólína í Hvammshlíð á sumardegi. AÐSEND MYND

Feykir stóð fyrir vali á Manni ársins á Norðurlandi vestra nú yfir jólin og lauk kosningu á hádegi á nýársdag. Valið stóð á milli átta aðila og var hægt að kjósa á Feykir.is eða senda inn atkvæði á skrifstofu Feykis. Alls voru það 1640 sem kusu og varð niðurstaðan sú að Karólína í Hvammshlíð, hvunndagshetja og baráttukona, reyndist öruggur sigurvegari, fékk 47% atkvæða og telst því vera Maður ársins 2023 á Norðurlandi vestra.

Í rökstuðningi með Karólínu segir: „Karólína í Hvammshlíð hefur farið fyrir því að reyna að leita leiða við að útrýma riðu úr íslensku sauðfé. Hennar þrotlausa vinna í samvinnu við erlenda vísindamenn í báráttunni við þennan vágest hefur skilað því að nýrri nálgun verður nú héðan í frá beytt. Karólína hefur sýnt það að með mikilli þrautseigju er hægt að velta við þungum steinum.“ Þess má geta að Húnahornið stóð fyrir vali á Húnvetningi ársins 2022 í fyrra og þá varð Karólína Elísabetardóttir í Hvammshlíð einmitt fyrir valinu.

Sigur Karólínu í valinu má telja bísna magnaðan á ári þar sem tveir fulltrúar meistaraliðs Tindastóls í körfubolta létu drauma stuðningsmanna rætast með ævintýralegum hætti. Sem sýnir að sjálfsögðu best hversu mikils vinna Karólínu er metin hér fyrir norðan og væntanlega um land allt. 

Í öðru sæti í valinu varð Dagur Þór Baldvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls, með 15% atkvæða og Pétur Rúnar Birgisson, leikstjórnandi Tindastóls, hafnaði í þriðja sæti með 12% atkvæða.

Karólína, sem býr um það bil miðja vegu milli Austur-Húnavatnssýslu og Skagafjarðar, á Þverárfjalli, var nýbúin að heimsækja Krókinn þegar Feykir tilkynnti henni um úrslitin og óskaði til hamingju. Hún á væntanlega erindi á Krókinn að viku liðinni og mun þá taka við viðurkenningunni. Feykir þakkar þeim sem greiddu atkvæði í valinu fyrir þátttökuna og óskar Karólínu hjartanlega til hamingju með nafnbótina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir