Munum bara að lífið er núna

Sigga eitthvað að jólast. MYND AÐSEND
Sigga eitthvað að jólast. MYND AÐSEND

Það er dama úr Blönduhlíðinni, Sigríður Garðarsdóttir í Miðhúsum, sem svarar síðasta uppgjörinu í Feyki fyrir árið 2023. „Kona á mínum aldri er gjarnan með óskipulagðan verkefnalista. Þegar eitthvað aðkallandi berst fyrir mínar dyr er það afgreitt og leyst,“ segir Sigga eldhress þegar Feykir spyr hvað hún sé að bardúsa þessa dagana.

Hún bætir við: „Fastir liðir eru að sinna eiginmanninum og hafa félagsskap af skemmtilegu fólki á Löngumýri annan hvern þriðjudag. Fyrsti hittingur eftir áramót er 9. janúar. Ég nýt daganna um jól og áramót með fjölskyldu og vinum, það er ómetanlegt. Hópurinn hefur fjölgað sér í áranna rás og eitt barnabarnið sagði við mig í gær [Nýársdag] að ég yrði að fara að leigja Löngumýri fyrir afmælið mitt. Munum bara að lífið er núna og njótum stundarinnar.“ Þá er það uppgjörið...

Hver er maður ársins? – Björgunarsveitarmaðurinn.

Hver var uppgötvun ársins? – Að ég er ekki alltaf 25 ára.

Hvað var lag ársins? – Thank You með Daða Frey. Kemur mér til að hugsa um og þakka fyrir afkomendurna.

Hvað gerðirðu ekki á árinu sem þú ætlaðir þér að gera? – Fara suður Sprengisand og ferðast meira um suðausturlandið.

Hvers er eftirminnilegast frá árinu 2023? – Samvera með góðu fólki í sorg og gleði.

Hvaða þrjú orð lýsa árinu best? – Fegurð landsins fjalla – til dæmis Blönduhlíðarfjallanna.

Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? – Óheiðarleika, græðgi og mannvonsku. Heimurinn væri betri án þess.

Hvað viltu sjá gerast árið 2024? –Að það verði minna um stríð, ofbeldi og hatur í heiminum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir