Tókst að sniðganga alveg markmið síðasta árs

Magnús Barðdal. AÐSEND MYND
Magnús Barðdal. AÐSEND MYND

Það er Króksarinn Magnús Barðdal sem gerir upp árið að þessu sinni en hann starfar nú sem verkefnastjóri fjárfestinga hja SSNV en hans helsta verksvið er að auka fjárfestingar í landshlutanum með það fyrir augum að fjölga atvinnutækifærum. Hann væri alveg til í að sjá Tindastólsmenn verja Íslandsmeistaratitilinn.

Hver er maður ársins? – Það er björgunarsveitafólkið í Grindavík. Þau eiga þetta svo sannarlega skilið eftir að hafa staðið vaktina vegan jarðhræringa á Reykjanesi. Þvílíkar hetjur.

Hver var uppgötvun ársins? – Ég vona að salan á nýsköpunarfyrirtækinu Kerecis á Ísafirði hafi sýnt fram á hversu mikil verðmæti felast í nýsköpun. Verðmætasta Fyrirtæki landsins.

Hvað var lag ársins? – Úlfur Úlfur gáfu út plötuna Hamfarapopp á árinu sem er frá upphafi til enda algjör snild. Ef ég á að velja eitt lag þá er það lagið Salt á þessari frábæru plötu.

Hvað gerðirðu ekki á árinu sem þú ætlaðir þér að gera? – Ég var með metnaðarfull áform í uphafi árs um að ganga á fleiri fjöll á árinu. Einhvernvegin tókst mér að sniðganga þetta markmið alveg. Tek það á næsta ári ;o) [nýju ári].

Hvers er eftirminnilegast frá árinu 2023? – Stemmingin sem skapaðist í kringum úrslitakeppnina í körfubolta í vor. Það var einstakt að sjá samfélagið standa á bak við lið sitt og finna að það leynast Tindastólsmenn allstaðar!

Hvaða þrjú orð lýsa árinu best? – Náttúruhamfarir – Verðbólga – Gervigreind.

Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? – Æji, má ekki bara henda vaxtahækkunum og verðbólgu á brennuna í þetta skiptið? Mun ekki sakna þess á nýju ári.

Hvað viltu sjá gerast árið 2024? – Árið 2023 hefur einkennst af átökum erlendis sem hafa haft áhrif á alla heimsbyggðina. Ég myndi gjarnan vilja að 2024 yrði þekkt sem árið þar sem stríðin enduðu og friður komst á. Einnig væri ég mjög mikið til í að sjá Tindastól verja Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta, Já og lægri vextir og minni verðbólga mættu alveg fljóta með á óskalistann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir