Tvennir útgáfutónleikar um helgina

Slagarasveitin MYND:FACEBOOK
Slagarasveitin MYND:FACEBOOK

Hljómsveitin Slagarasveitin frá Hvammstanga heldur tónleika í tilefni af útgáfu nýrrar plötu. Um er að ræða tólf laga plötu sem ber nafn sveitarinnar. Tónleikarnir verða tvennir. Í Iðnó Reykjavík föstudaginn 22. september og Félagsheimilinu Hvammstanga daginn eftir. Tónleikarnir hefjast báðir klukkan 20:30 og er það Ásdís Aþena ungstirni frá Hvammstanga sem opnar tónleikana. Miðasala fer fram á adgangsmidi.is og við hurð, meðan húsrúm leyfir.

Slagarasveitin er ekki ný hljómsveit heldur voru það ungir menn á Hvammstanga sem stofnuðu hljómsveitina 1986, þeir Ragnar Karl Ingason, Skúli Þórðarson og Geir Karlsson en þeir spiluðu ábreiður og komu fram af og til en hættu 2003. Þeir héldu samt hópinn og byrjuðu að taka hjóðfærin með sér í veiðiferðir og fóru þá að semja lög og texta. Það er Ragnar Karl sem á lögin og textana en Skúli semur einnig texta.

Hafa þeir verið að koma aftur fram sem hljómsveit síðan 2018. Þegar þeir endurvöktu hljómsveitina bættust í hópinn þeir, Valdimar Gunnlaugsson og Stefán Ólafsson. Halldór Ágúst Björnsson í Neptúns, hefur séð um upptökur fyrir hljómsveitina og hefur sveitin gefið út tíu lög á Spotify og YouTube sem eru á nýju plötunni ásamt tveimur óútgefnum lögum. Vínilplata og geisladiskur eru nú væntanleg.

„Æfingar hafa gengið mjög vel og er hljómsveitin klár í tónleikana. Gleðin og áhuginn er allsráðandi hjá okkur og það verður enginn svikinn af því að mæta á tónleika,“ segir Stefán Ólafsson einn af meðlimum Slagarasveitarinnar. Fyrir tónleikanan fær hljómsveitin aukalega til liðs við sig Aðalstein Grétar Guðmundssin, Aldísi Olgu Jóhannesdóttur, Ástrósu Kristjánsdóttur, Guðmund Hólmar Jónsson, Hjört Gylfa Geirsson og Kristínu Guðmundsdóttur.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir