Kjúklingur í súrsætri tómatsósu og heimalagaður rjómaís

Matgæðingarnir Ægir og Stella. Mynd úr einkasafni.
Matgæðingarnir Ægir og Stella. Mynd úr einkasafni.

Stella Jórunn A. Levy og Ægir Jóhannesson á Jörfa í Víðidal sáu um Matgæðingaþátt Feykis í 27. tölublaði ársins 2015. „Við ákváðum að senda ekki inn forrétt einfaldlega vegna þess að við erum ekki mikið forréttafólk. Þess í stað er bara meira lagt í aðalrétt, meðlæti og deserta hér á bæ.  Að maður tali nú ekki um stemningu og skemmtanagildi,“ sögðu matgæðingarnir Stella og Ægir..

Aðalréttur
Kjúklingur í súrsætri tómatsósu 

4 - 6 kjúklingabitar
1 - 2 bréf beikon
1 dós sýrður rjómi
5 msk tómatsósa
1 - 2 msk chilisósa (má vera minna eða meira eftir smekk)
2 msk ólífuolía
1 msk balsamikedik
1 tsk dijonsinnep
1 tsk karrý
1 banani
rifinn ostur eftir eigin geðþótta
góð handfylli af salthnetum.

Aðferð:
Beikonið skorið niður, mér finnst persónulegra auðveldast að klippa það bara beint á pönnuna, og steikt þar til óskaáferð og litur er fenginn. Því dreift kæruleysislega en þó samviskusamlega í eldfast mót. Því næst er kjúklingurinn skorinn niður í munnbita og steiktur á sömu pönnu til að fá smá auka beikontöfra í kjúllann. Kryddið með uppáhalds kryddinu ykkar, mitt er t.d. salt og pipar. Þegar kjúklingurinn er orðinn fullkominn er bitunum skutlað yfir beikonið í eldfasta mótinu. Blandið öllum öðrum hráefnum vel saman (fyrir utan bananann, ostinn og salthneturnar) og hellið yfir kjúllabeikonið. Því næst er bananinn sneiddur niður og honum raðað fagnandi yfir. Rifinn ostur er næstur á dagskrá (honum dreift yfir með brosi á vör ) og eftir smekk hvers og eins er salthnetum dreift frjálslega yfir rifna ostinn. Trúið mér salthneturnar eru að poppa þetta algjörlega upp. Bakað í ofni (við um 200°C)  þar til osturinn er gullinbrúnn.
Borið fram með snittubrauði, hrísgrjónum, sojasósu og salati. Salatið fer algjörlega bara eftir því hvað heimilisfólkið borðar.
 

Eftirréttur
Heimalagaður rjómaís 

750 ml rjómi
9 eggjarauður
1½ dl sykur
1 poki af Núggat & súkkulaði spænum frá Mónu (150 g).

Aðferð:
Athugið að þetta er frekar stór uppskrift en það er vegna þess að ísinn klárast alltaf þegar hann er framborinn á okkar heimili og því dugar ekki að búa til smáís. Uppáhalds eldhústækið dregið fram en það er hrærivélin. Rjóminn stífþeyttur og settur til hliðar. Eggjarauðurnar því næst stífþeyttar með sykrinum. Rjóma og eggjarauðum síðan blandað varlega saman með sleif. Ég nota ekki hrærivélina á þessu stigi. Súkkulaðinu bætt út í og blandað varlega en þó með hamingju saman við.
Á þessu stigi ísgerðarinnar finnst fjölskyldumeðlimum nauðsynlegt að fá sér smá smakk svona til að koma sér í gírinn. Ísnum er því næst hellt í fallegt mót eða skál sem má frysta. Lokað vel og fryst í a.m.k. 6 klst.
Þegar ísinn er borinn fram er dásamlegt að bera hann fram með alls konar ferskum ávöxtum t.d. jarðaberjum og bláberjum. Heimagerð heit íssósa er svo punkturinn yfir ísinn en það eru auðvitað til margar slíkar sósur. Læt fylgja með tvær góðar. 

Rolo íssósa:

3 pakkar af Rolo
¾ dl rjómi. 

Aðferð:
Setjið rjómann í pott og Rolo út í, bræðið Rolo í rjómanum, passið að þetta brenni ekki við pottinn, hrærið stöðugt í. 

Mars íssósa:

4 Mars súkkulaði
100 g suðusúkkulaði
1 peli rjómi. 

Aðferð:
Allt sett í pott og hitað á lágum hita, þar til súkkulaðið er bráðið og hefur samlagast rjómanum, hrært af og til í pottinum þar til þetta hefur þykknað. 

 

Verði ykkur að góðu!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir