Gyrðir sýnir einstök myndverk í Garðinum

Gyrðir við einn sýningarvegginn. MYND: NÖKKVI ELÍASSON
Gyrðir við einn sýningarvegginn. MYND: NÖKKVI ELÍASSON

Gyrðir Elíasson heldur sýningu á myndverkum sínum þrjár helgar í apríl en sýningin, sem hann kallar Undir stækkunargleri, er til húsa að Sunnubraut 4 (2. hæð) í Garðinum í Suðurnesjabæ. Fyrsti sýningardagurinn er nú á laugardag en opið verður frá kl. 13–17 laugardaga og sunnudaga. Áhugasamir mega gera ráð fyrir því að það taki svolítinn tíma að skoða sýninguna þar sem verkin eru um 1.200 talsins.

Gyrðir, fæddur 1961, er alinn upp á Króknum, bjó við hliðina á róluvellinum við Hólmagrund, og stundaði m.a. nám við Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki. Gyrðir gaf út sína fyrstu bók, Svarthvít axlabönd, árið 1983 en hefur síðan sent frá sér fjöldan allan af ljóðabókum, smáprósum, smásögum, skáldsögum og þýðingum, Hann er af mörgum talinn mesta skáld þjóðarinnar nú um stundir. Nú sýnir hann á sér aðra hlið.

Á kynningarsíðu Undir stækkunargleri á Facebook segir að um sé að ræða sölusýningu á einstökum myndverkum sem mörg hver eru örsmá. Óhætt er að fullyrða að um óvenjulega sýningu sé hér að ræða þar sem öll verkin eru til sölu og verðlaginu stillt í hóf. Smámyndir Gyrðis hafa á undanförnum árum prýtt kápur bóka hans, meðal annars metsölubækurnar Dulstirni / Meðan glerið sefur og smáprósasöfnin Þöglu myndirnar / Pensilskrift.

„Þótt Gyrðir sé auðvitað þekktastur fyrir ritverk sín hefur hann oft greint frá því að myndlistin hafi allt frá barnæsku verið honum hugleikin. Á síðustu tíu til fimmtán árum hefur hann meðfram ritstörfum þróað og unnið að myndlist sinni sem ber á margan hátt keim af orðlist hans. Yfirskrift sýningarinnar er lýsandi og víst er að sýningin hefur talsvert annað yfirbragð en gengur og gerist,“ segir í texta á Facebook-síðunni.

Helgaropnanir frá kl. 13 til 17 verða dagana 6. og 7. apríl, 13. og 14. apríl og 20. og 21. apríl. Helgarrúntur í Garðinn er góð hugmynd og kannski óvitlaust að hafa með sér stækkunargler á sýninguna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir