Jón Oddur sigraði A-deild á lokamóti Kaffi Króks mótaraðarinnar

Jón Oddur kampakátur með sigurlaunin. MYND: PKS
Jón Oddur kampakátur með sigurlaunin. MYND: PKS

Lokamótið í Kaffi Króks mótaröðinni í pílu þetta vorið fór fram í gærkvöldi. Átján kempur mættu til leiks hjá Pílukastfélagi Skagafjarðar að þessu sinni og var keppt í þremur deildum. Sigurvegari í A deild var Jón Oddur Hjálmtýsson en í B deild var það Brynjar Snær Halldórsson sem sigraði. í C deildinni var það síðan Heiðar Örn Stefánsson sem stóð uppi sem sigurvegari.

Þá voru einnig veitt aukaverðlaun fyrir hæsta útskotið í öllum mótum og var það Hjörtur Geirmundsson sem fékk þau með útskot upp á 160 sem hann náði í fimmta móti raðarinnar.

Í kringum 30 pílukastarar hafa tekið þátt í einu eða fleiri mótum á mótaröðinni og að sögn Hjartar Geirmundssonar, starfsmanns á plani hjá PKS, þá er enn bullandi áhugi fyrir pílunni. „Það eru ungir strákar að bætast í hópinn, vantar fleiri konur. Sylvía mætir alltaf og heldur uppi heiðri þeirra,“ segir Hjörtur og minnist á að í dag sé mót í Fjölbrautinni þar sem átta bestu/efnilegustu pílarar skólans taka þátt. Það mót fer fram í bóknámshúsi FNV í kvöld en húsið opnar 19:30 og er öllum velkomið að bera dýrðina augum.

Hjörtur bætir við að Pílukastfélagið hafi fengið helling af hópum, klúbbum og fyrirtækjum í heimsókn á sl. ári og það er af þessu ári. „Svo höfum við notið mikils velvilja margra fyrirtækja sem hafa styrkt okkur með kaupum á auglýsingum. Svo er líka til sölu ýmis búnaður, spjöld, pílur og fylgihlutir hjá PKS. Mjög margir komnir með þetta í skúrinn hjá sér.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir