Sigmar Þorri sigraði Stóru upplestrarkeppnina í Skagafirði

Heiðdís Rós Hafrúnardóttir, Björgvin Skúli Hauksson og Sigmar Þorri Jóhannsson.MYND JÓHANN HELGI SIGMARSSON
Heiðdís Rós Hafrúnardóttir, Björgvin Skúli Hauksson og Sigmar Þorri Jóhannsson.MYND JÓHANN HELGI SIGMARSSON

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Skagafirði var haldin í sal Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra í gær. Stóra upplestrarkeppnin hefur verið haldin í alls 23 skipti í Skagafirði. Allt frá degi íslenskrar tungu á ári hverju er markvisst unnið með framsögn í skólastarfi grunnskólanna og allir nemendur sjöundu bekkja taka þátt og fá þjálfun í því að lesa upp, sjálfum sér og öðrum til ánægju.

Skólarnir halda svo undankeppnir hver fyrir sig og senda þá nemendur sem reyndust hlutskarpastir til keppni á lokahátíð. Á lokahátíðinni öttu kappi níu lesarar úr öllum grunnskólum Skagafjarðar og lásu sögubrot og tvö ljóð. Fóru leikar þannig að Sigmar Þorri Jóhannsson úr Árskóla hlaut fyrstu verðlaun, Heiðdís Rós Hafrúnardóttir úr Varmahlíðarskóla önnur og Björgvin Skúli Hauksson úr Árskóla þau þriðju. Voru lesarar og varamenn þeirra sem einnig fluttu ljóð á hátíðinni til mikillar fyrirmyndar og sjálfum sér og skólum sínum til sóma.

Nemendur úr Tónlistarskóla Skagafjarðar sáu um tónlistarflutning og léku á bæði trompet og píanó. Keppendur frá fyrra ári, þær Dagmar Helga Helgadóttir, Snæfríður Áskelsdóttir og Greta Berglind Jakobsdóttir stýrðu samkomunni styrkri hendi. Bókaútgáfan Forlagið færði öllum keppendum bókina Eld eftir Björk Jakobsdóttur að gjöf./ Laufey Leifsdóttir, myndirnar tók Jóhann Helgi Sigmarsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir