Síungur söngvari verður sjötugur og heldur tónleika

Álftagerðisbróðirinn geðþekki, Óskar Pétursson, hyggst halda upp á sjötugsafmæli sitt með því að halda stórtónleika í þremur helstu tónleikasölum landsins; Hörpu, Hofi og í Menningarhúsinu Miðgarði í Skagafirði. Óskar er að sjálfsögðu einn dáðasti söngvari landsins, hann á að baki langan og farsælan feril og er þekktur fyrir fagran söng og skondnar kynningar. Tónleikarnir í Miðgarði fara fram 12. október og það er að verða eitthvað lítið eftir af miðum.

Á miðasölusíðunni Tix.is segir: „Óskar verður ekki einn á ferð því bræður hans frá Álftagerði, þeir Pétur og Gísli, munu ekki láta sitt eftir liggja og mæta í öllu sínu veldi. Auk bræðranna mun Guðrún Gunnarsdóttir láta ljós sitt skína að ógleymdum bestu sonum Skagafjarðar í Karlakórnum Heimi undir styrkri stjórn Stefáns R. Gíslasonar.“

Hljómsveitarstjórn er í höndum góðvinar Óskars, snillingsins Valmar Väljaots, sem hefur heillað Íslendinga frá því hann flutti á Frón frá Eistlandi og svo mætir Ívar Helgason á svæðið. Það má því fullyrða að þetta bara geti ekki klikkað.

Sem fyrr segir verða tónleikar í Miðgarði fimmtudagskvöldið 12. október, þrennir tónleikar verða í Hofi á Akureyri dagana 14.-15. oktbóer og svo lýkur sjötugsafmælinu 28. október í Eldborgarsalnum í Hörpu.

Ef einhver er að velta fyrir sér hvenær Óskar verður sjötugur þá er það reyndar ekki fyrr en á jóladag. En svona er sjóbissnessinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir