„Arena með Duran Duran er algjör klassi“ / STJÁNI TROMMARI

Trommarinn Kristján Kristjánsson fæddist á Siglufirði árið 1973 líkt og tvíburabróðir hans Kristinn, nema Kiddi spilar á bassa. Fjölskyldan flutti á Krókinn þegar Stjáni var níu ára og telur hann sig því meiri Króksara en Siglfirðing (!). „Ég er sonur Jóninnu Hjartardóttur hundaræktanda í Hveragerði og Kristjáns Óla Jónssonar, fyrrverandi lögregluvarðstjóra í Lögreglunni á Sauðárkróki, eða Roy eins og hann er kallaður á stöðinni. Ég spilaði á pottana hjá mömmu frá því að ég man eftir mér en færði mig svo yfir í alvöru trommur og slagverk ýmisskonar þegar ég áttaði mig á því að það væri engin framtíð í því að spila á potta endalaust með prjónunum hennar móður minnar,“ segir Stjáni sem nú hamrar húðir og járn hjá Geirmundi.

Helstu tónlistarafrek: Hljómsveitin Segulbandið var fyrsta afrekið í tónlistarbransanum sem stofnuð var á því herrans ári 1987 á Króknum og var vinsæl fyrir að taka cover lög á borð við Heyja Heyja, Stand by me og spila á einu Bæjarvinnuballi svo eitthvað sé nefnt.  Hljómsveitin John wayne var svo stofnuð þegar ég var í Fjölbrautarskólanum á sauðárkrók og gat hún sér góðan orðstír vegna nokkurra vel heppnaðra dansleikja á Hótel Mælifelli.  Þaðan lá leiðin í Hljómsveitina Herramenn með Kristján Gíslason í fararbroddi og svo  árið 1998 gekk ég  til liðs við Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar í nokkur ár, stofnaði svo hljómsveitina Von ásamt nokkrum félögum á Króknum þar sem gefið var út efni og þvælst um allt land, gekk svo aftur til liðs við Sveiflukónginn Geirmund Valtýsson og er þar enn. Ég kom einnig að Dægurlagakeppni Kvenfélags Sauðárkróks í nokkur skipti, ýmist sem liðsmaður í hljómsveit kvöldsins, tónlistarsjóri eða framkvæmdasjóri.  Einnig hef ég tekið þátt í allskonar tónlistarverkefnum samhliða því sem ég taldi  upp hér að ofan en er of langt mál að telja upp að þessu sinni en hafa verið skemmtileg og þroskandi verkefni.

Uppáhalds tónlistartímabil?  Það mun vera 80´s tímabilið og án nokkurs vafa það besta í tónlistarsögunni fram að þessu, mikil hljóðgerflavakning á þessum árum og menn voru að prófa sig áfram í þeim efnum með allskonar pælingum:-) Held að öll góðu lögin hafi klárast á þessu tímabili.:-)

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Fer mikið eftir því hvað ég er að gera, hlusta t.d. á allt annað í ræktinni en heima hjá mér í rólegheitum.  Þess má geta að Duran Duran eru að gefa frá sér nýtt efni á næstu dögum í samvinnu við Neil Rodgers og mun það klárlega fá mig til að sperra eyrun í framhaldinu.  Lag af þessari plötu hefur verið í spilun núna í nokkrar vikur í útvarpi og lofar góðu.  Þetta verkefni þeirra á milli er eitthvað sem mér finnst mest spennandi um þessar mundir.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það voru eðal grúppur eins og Goombay Dance Band með ljóshærða krulluhausnum sem ég man ekki nafnið á, Abba, Boney M., Eurythmics, Bítlarnir, Rolling Stones, American Graffiti svo eitthvað sé nefnt.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Fyrsta tónlistinn sem ég keypti mér var á kasettu og var að sjálfsögðu Arena með hljómsveitinni Duran Duran. Man þegar ég var á kassanum í Skaffó að borga fyrir gripinn þá spurði afgreiðslumaðurinn mig, sem ég man ekki hver var, hvort ég vildi ekki frekar eyða peningnum mínum í eitthvað annað, ég lét það ekki stoppa mig.  Keypti mér svo plötuna líka fljótlega eftir þetta.

Hvaða græjur varstu þá með? Ég átti vasadiskó frá Sony sem ég hafði fengið í jólagjöf.  Svo voru Pioneer græjur í stofunni heima sem ég notaði mikið og voru með plötuspilara.  Notaði þær græjur mikið til að taka upp tónlist í útvarpinu á kasettur og á einhverjar ennþá, vel varðveittar.

Hver var fyrsta platan sem þú óskaðir þér í jólagjöf? Það var platan Arena með Duran Duran og þar sem ég hafði ekki fengið hana keypti ég mér hana sjálfur á endanum, fyrst á kasettu og svo plötu.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Lemon Tree með Fools Garden, veit ekki hvað það er en ég vil helst ekki heyra þetta lag og slekk á útvarpinu ef það byrjar að hljóma.

Uppáhalds Júróvisjónlagið? Það er klárlega Gleðibankinn, besta Júróvisionlag allra tíma. Nína með Stebba og Eyfa kemst líka á þann stall.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Þegar ég held partý þá blanda ég saman öllum helstu 80´s smellum sögunnar og læt það rúlla.  Mikilvægt að hafa Take On Me með Aha á þeim lista ásamt bestu smellum Duran Duran og Phil Collins, svo er ekki slæmt að lauma þarna inná mili ballöðu með Peter Cetera, klikkar aldrei.:-)

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Allar Helstu 80´s ballöðurnar, erfitt að velja úr þeirri flóru enda margar góðar.  Svo er aldrei leiðinlegt að heyra góðan blús í rólegheitum á morgnana.  Annars finnst mér best að vera undir sæng á Sunnudagsmorgni ef það er brjálað veður úti og hlusta  á veðrið berja á rúðunni undir hlýrri sænginni.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Það myndi klárlega vera London, tónleikar með Duran Duran og bræður mínir tveir fengju að fljóta með og  fara svo á leik með Liverpool í leiðinni.  Ég missti af Duran Duran þegar þeir komu til íslands fyrir nokkrum árum og er enn að jafna mig á því.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Mig dreymdi á sínum tíma um að vera í sporum hins mikla meistara Phil Collins þegar ég var að alast upp á Króknum, mikill trommusnillingur og lagasmiður en kanski ekki eins góður leikari eins og dæmin sanna en það skipti mig ekki máli því mig langaði aldrei að verða leikari.:-)

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Arena með Duran Duran, algjör klassi sem dettur aldrei úr tísku, allavega ekki hjá mér, held tryggð við mína menn og var líka fyrsta platan sem ég keypti og fyrsta uppáhalds hljómsveitin mín.  Það má kanski nefna það að auðvitað á ég þessa plötu á Geisladisk líka, á hana sem sagt á kasettu, plötu og geisladisk, dugar ekkert minna fyrir svona meistarastykki.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? Ef við erum að tala um frá því að ég man eftir mér og til dagsins í dag, þá eru það:
Ordinary World - Duran Duran
Skyfall - Adele
Africa - Toto
Invisible Touch - Genesis/Phil Collins
Can´t Fight the Moonlight - LeAnn Rimes
Take On Me - Aha

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir