Maria Callas og Norah Jones notaðar til að svæfa / SÓLVEIG ERLA

Sólveig Erla á þverflautuna og MargrétSigurðardóttir plokkar bassann. MYND AÐSEND
Sólveig Erla á þverflautuna og MargrétSigurðardóttir plokkar bassann. MYND AÐSEND

Tón-lystin hefur áður tekið fyrir tvær dömur í hljómsveitinni Skandal, þær Ingu Suska frá Blönduósi og Sóleyju Sif frá Skagaströnd, en nú er komið að þriðja og síðasta Norðvestlendingnum í þessari efnilegu fimm stúlkna hljómsveit. Röðin er því komin að Sólveigu Erlu Baldvinsdóttur frá Tjörn í Skagabyggð að tækla Tón-lystina en hún er fædd árið 2006, spilar á þverflautu og stundar nám við Menntaskólann á Akureyri líkt og aðrir meðlimir Skandals.

Sólveig Erla er alin upp á Tjörn og er dóttir Baldvins Sveinsonar frá Tjörn og Bjarneyjar Jónsdóttur frá Sölvabakka. Hún segir það vera mesta afrek sitt á tónlistarsviðinu hingað til að hafa spilað á síðasta Fiskideginum á Dalvík ásamt stöllum sínum í Skandal. Spurð út í hvað sé á döfinni svarar hún: „Við í hljómsveitinni Skandal erum nýbúnar að gefa út lagið Án þín og stefnum á að gefa út annað lag í janúar.

Vindum okkur í svörin sem koma örugglega mörgum músík-besser-vizzurum fæddum upp úr miðri síðustu öld skemmtilega á óvart.

Hvaða lag varstu að hlusta á? „November Rain með Guns N’ Roses.“

Uppáhalds tónlistartímabil? „Ég hef alltaf verið mjög hrifin af tónlist frá sjöunda áratugnum sem og rokklögum frá áttunda og níunda áratugnum.“

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? „Undanfarið hef ég verið að hlusta mikið á Pink Floyd og Whitesnake.“

Hvaða lag er í uppáhaldi akkúrat núna? „Money for Nothing með Dire Straits.“

Ef þú gætir valið þér söngvara til að syngja með dúett, hvaða söngvara vildirðu syngja með og hvað lag tækjuð þið? „Þótt ég geti nú alls ekki sungið þá væri ég til í að taka Total Eclipse of the Heart með Bonnie Tyler – kannski aðallega til þess að heyra hana syngja það.“

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? „Allt á milli himins og jarðar en ég man að Ljótu hálfvitarnir voru í miklu uppáhaldi hjá okkur systkinunum. Ég man að mamma stillti líka oft á Mariu Callas og Noruh Jones til að svæfa mig þegar ég var lítil.“

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? „Þar sem ég er fædd á tímum Spotify og YouTube hef ég aldrei í rauninni keypt mér tónlist.“

Hvaða græjur notaðirðu þá? „Ég horfði á ógrynni af tónlistarmyndböndum á YouTube á borðtölvunni heima.“

Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? „Ég man að lagið What Makes You Beautiful með One Direction þótti mikill slagari hjá sjö ára Sólveigu.“

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn eða fer óstjórnlega í taugarnar á þér? „Nær öll lög eftir Bubba Morthens.“

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? „Tie Your Mother Down með Queen.“

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? „Michelle með Bítlunum.“

Hvaða Bítlalag hefðir þú viljað hafa samið? „She’s Leaving Home. Aðallega vegna þess að mér finnst bæði lagið og textinn svo fallegur og það er eitt af uppáhalds Bítlalögunum mínum.“

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? „Ég myndi 100 prósent draga Margréti vinkonu mína með mér á Whitesnake tónleika í Bandaríkjunum.“

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? „Rosalega mikið af Arctic Monkeys lögum.“

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera eða haft mest áhrif á þig? „Ætli Bítlarnir hafi ekki haft mestu áhrifin á mig. Ég fékk algera Bítlamaníu fyrir nokkrum árum og hlustaði á tímabili á fátt annað.“

Hvaða plata hefur skipt mestu máli í þínu lífi og hvers vegna? „A/B með Kaleo var fyrsta platan sem opnaði augun mín fyrir rokktónlist og held ég þess vegna mikið upp á hana.“

Sex mest spiluðu lögin í síma Sólveigar Erlu:

Arabella / ARCTIC MONKEYS
The Chain / FLEETWOOD MAC
Sultans Of Swing / DIRE STRAITS
Stairway to Heaven / LED ZEPPELIN
While My Guitar Gently Weeps / BÍTLARNIR
Hotel California / EAGLES

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir