Ályktað um sjókvíaeldi á norskum laxi

Fiskeldiskvíar. Mynd: Kvótinn.is.
Fiskeldiskvíar. Mynd: Kvótinn.is.

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps hefur sent frá sér ályktun þar sem hún lýsir yfir þungum áhyggjum af fyrirætlunum um stórfellt eldi frjórra norskra laxa við strendur landsins þar sem ljóst sé að slíkt eldi geti haft margvísleg neikvæð áhrif á villta stofna silunga og laxa. Erfðablöndun sé þó þeirra alvarlegust.

Í ályktuninni segir ennfremur: „Nýlegt mat Hafrannsóknarstofnunar á áhættu vegna erfðamengunar sýnir svo ekki verður um villst að mikil áhætta fylgir stórfelldu sjókvíaeldi á norskum laxastofni. Því  til viðbótar verður aðeins ráðið að ímynd laxveiði á Íslandi muni einnig bera skaða af þar sem áhættumatið gerir ráð fyrir að eldislax muni veiðast í öllum ám, verði 71 þúsund tonna sjókvíaeldi að veruleika.“

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps bendir jafnframt á að tekjur af silungs- og laxveiði styrki búsetu í sveitum landsins og þar sé um verðmæta starfsemi að ræða sem byggi á fullri sátt við umhverfið þar sem hagsmunir náttúrunnar og fólksins séu þeir sömu. Brýnt sé því að sátt náist um ábyrga uppbyggingu fiskeldis þar sem gætt verði að sjálfbærri þróun og vernd lífríkisins. „Sveitarstjórn Húnavatnshreps leggur áherslu á að varúðar verði gætt og varar eindregið við að stundarhagsmunir ráði þegar um óspillta náttúru landsins er að tefla," segir í ályktuninni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir