Nemendur Húnaskóla fóru í vettvangsferð í Blöndustöð

Nemendur 9. og 10. bekkja Húnaskóla kátir í Blöndustöð. MYND AF VEF HÚNASKÓLA
Nemendur 9. og 10. bekkja Húnaskóla kátir í Blöndustöð. MYND AF VEF HÚNASKÓLA

Þann 11. mars sl. fóru nemendur níunda og tíunda bekkjar ásamt náttúrufræði kennurum sínum í vettvangsferð upp í Blöndustöð í blíðskaparveðri. Í frétt á heimasíðu Húnaskóla á Blönduósi segir að markmið ferðarinnar hafi verið að tengja námsefni um rafmagn og segulmagn, sem nemendur hafa verið að vinna í, við nánasta umhverfi og gefa þeim kost á að sjá með eigin augum hvernig rafmagn er framleitt.

„Í Blöndustöð fengum við vel skipulagða og greinagóða leiðsögn en fjórir starfsmenn Blöndustöðvar tóku á móti hópnum fylgdu honum um svæðið og kynntu fyrir þeim starfsemina. Skoðuðum við stöðvarhúsið, stjórnhúsið og starfsmannahúsið en þar var okkur boðið upp á drykki og nýbakaða skúffuköku sem kokkurinn og starfsmenn í eldhúsi reiddu fram,“ segir í fréttinni.

Fram kemur í fréttinni að það sé ómetanlegt fyrir skólasamfélagið hvað fyrirtæki í Húnabyggð séu jákvæð fyrir því að fá nemendur í heimsókn og gefa þannig kennurum kost á því að tengja námsefni við atvinnulífið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir