Upplýsingavefur um sameiningarmál í Austur-Húnavatnssýslu

Skjámynd af sameining.huni.is. Myndirnar efst á síðunni tók Höskuldur B. Erlingsson.
Skjámynd af sameining.huni.is. Myndirnar efst á síðunni tók Höskuldur B. Erlingsson.

Húni.is segir frá því að nú hefur verið opnaður upplýsingavefur um sameiningarmál sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu þar sem er að finna fréttir og tilkynningar, fundargerðir, minnisblöð og aðrar upplýsingar sem tengjast mögulegri sameiningu sveitarfélaganna fjögurra í Austur- Húnavatnssýslu; Skagastrandar, Skagabyggðar, Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps, sem nú eiga í viðræðum um sameiningu. Slóðin á vefinn er:sameining.huni.is.

Upplýsingavefur þessi er samstarfsverkefni Húnahornsins, sameiningarnefndar A-Hún. og ráðgjafarfyrirtækisins Ráðrík og er í umsjón og á ábyrgð Húnahornsins. Þær upplýsingar sem á vefnum birtast koma frá sameiningarnefndinni og Ráðrík. Aðra almenna textavinnslu sér Húnahornið um.

Að sögn Svanfríðar Jónasdóttur hjá Ráðrík ráðgjöf er upplýsingavefurinn mjög mikilvægur til þess að allir geti fylgst með og kynnt sér þá vinnu sem er í gangi í tengslum við framtíðarskipan sveitarstjórnarmála í A-Hún. Mikilvægt sé að sem flestir hafi tök á að kynna sér sameiningarmálefnin, geti rætt málin og komið sínum sjónarmiðum á framfæri.

Nú er verið að undirbúa að halda opna fundi á sex stöðum í sýslunni strax eftir páska. „Þeir verða opnir öllum íbúum, þ.e.a.s. þú þarft ekki að mæta á fundinn sem er næstur þínu heimili, heldur getur sótt hvaða fund sem er til að taka þátt í umræðu um framtíðarskipan sveitarfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu,“ segir Svanfríður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir