Viðburðaríkt ehf. með nýung í Sæluviku á Sauðárkróki - Heimatónleikar þann 30. apríl

Viðburðaríkt ehf. á Sauðárkróki stendur fyrir nýung í tónleikahaldi á Sauðárkróki í komandi Sæluviku, nánar tiltekið þriðjudaginn 30. apríl. Um er að ræða svokallaða heimatónleika, tónleika sem fara fram í heimahúsum eða á öðrum óhefðbundnum tónleikastöðum. Fyrirkomulagið er þannig að 6-8 flytjendur halda 12 stutta tónleika á 6 stöðum á einu kvöldi. Gestum býðst að kaupa einn aðgöngumiða sem gildir á alla þessa tónleika sem munu hefjast á mismunandi tímum til að gefa gestum kost á að sjá sem flesta. Í lok kvöldsins sameinast svo allt listafólkið á einn stað á lokatónleikum. Um er að ræða tónleikaform sem er mjög þekkt erlendis og hefur verið prófað hérlendis undanfarin ár, m.a. í Hafnarfirði, Reykjanesbæ og á Akranesi. Og nú er komið að Sauðárkróki.

Fljótlega verður opinberað í hvaða heimahúsum verður leikið og hvaða listafólk mun koma fram, en þó er hægt að staðfesta að Jónas Sigurðsson verður þar á meðal, auk listafólks frá Skagafirði. Áhersla verður lögð á flutning á frumsömdu efni.

Að tónleikunum stendur Áskell Heiðar Ásgeirsson sem hefur mikla reynslu í tónleikahaldi og hefur m.a. staðið fyrir Drangey Music Festival hér í Skagafirði og Bræðslunni á Borgarfirði eystra. Verkefnið hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra.

Forsala hefst innan skamms og verður hún kynnt vel þegar þar að kemur. En þangað til er um að gera að taka þriðjudaginn 30. apríl frá fyrir fjölbreytta tónlistarupplifun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir