Af gefnu tilefni

Berglind Þorsteinsdóttir, ritstjóri Feykis fréttablaðs Norðurlands vestra.
Berglind Þorsteinsdóttir, ritstjóri Feykis fréttablaðs Norðurlands vestra.

Þar sem Feykir er til umræðu á öðrum stað í blaðinu vil ég koma á framfæri nokkrum atriðum og svara gagnrýni sem fram kemur í aðsendri grein Arnar Ragnarssonar framkvæmdastóra lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands.

Fyrst vil ég benda á það að það eru ekki óvenjuleg vinnubrögð að skrifa fréttir úr fundargerðum sveitarfélaga án þess að leita viðbragða við þeim. Jafnvel stærri miðlar en Feykir, sem hefur tvo blaðamenn, hafa sama háttinn á. Það væri óskandi að tími og fjármagn væri til þess að hafa samband við marga aðila við vinnslu hverrar fréttar, líkt og hjá Morgunblaðinu eða Rúv, og en það því miður ekki raunin. Þá er vert að taka fram að innihald frétta endurspeglar ekki endilega skoðun blaðsins eða okkar sem vinnum við það - né heldur á það við um aðsendar greinar, en öllum er velkomið að fá greinar birtar, innan siðsamlegra marka auðvitað. Við hvetjum alla til að hafa samband við okkur ef þeir hafa athugasemdir og vilja leiðrétta rangfærslur að þeirra mati, við tökum vel á móti öllum og viljum birta allar hliðar málsins í okkar fréttaflutningi.

Í grein Arnar segir hann að Feykir hafi ekki reynt að hafa samband neinn af stjórnendum heilbrigðisstofnunarinnar. Það er ekki alls kostar rétt þó hann hafi ekki forsendur til þess að vita það, þar sem enginn tók upp tólið í þau skipti sem ég hef reynt. Ég hef lengi verið á leiðinni að ræða við Jón Helga Björnsson forstjóra eftir sameiningu HSN og nokkrum sinnum gert tilraun til þess án árangurs. En þar sem ég get ekki betur séð en að allt hafi gengið vel við þessa sameiningu og ekkert komið upp á þá hefur mér ekki þótt það mjög aðkallandi að fylgja því eftir. En rétt er að taka fram að hvorki Örn né aðrir stjórnendur HSN hafa haft samband við okkur hjá Feyki og óskað eftir umfjöllun eða fréttaflutningi eftir sameininguna, sem hefði auðvitað verið kærkomið.

Að lokum vil ég taka undir orð hans að í stað þess að eyða tíma í að pirra sig og ergja er lítið mál að taka upp símann og ræða málin.

Berglind Þorsteinsdóttir
Ritstjóri Feykis

[leiðari birtur í Feyki þann 24. september 2015]

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir