Sendur á eftir fénu í sláturhúsið

Þar sem ég er vanur að verða við óskum Önnu Scheving ætla ég að  reyna að feta í spor hennar. Ég get ekki gert eins og hún og talið fram búsetu allt í kringum landið þar sem ég hef alltaf búið hér í héraðinu og aðeins dvalið einn vetur annars staðar vegna náms.

Ég var reyndar mjög heimaalið barn því þegar ég, 9 ára gamall, 1. nóvember 1970, mætti í fyrsta sinn í skóla í Ásbyrgi Laugarbakka hafði ég aldrei verið nótt að heiman og reyndar mjög lítið komið út fyrir Vatnsnesið. Þennan vetur skiptust yngri og eldri deild (það sem nú væri  annarsvegar 4. og 5. bekkur og hinsvegar 6. og 7. bekkur) á um að vera í skólanum tvær vikur í senn en 1. bekkur unglingadeildar (8. bekkur nú) alltaf, allir í heimavist. Næsta vetur var bætt einum bekk ofan við og farið heim um hverja helgi.

Næstu vetur var smám saman 2. og 3. bekk bætt við og tvísetningu hætt því nú var nýbygging Laugarbakkaskóla tekin í notkun, áfram varð þó að kenna nokkrum bekkjum í Ásbyrgi. Vegna fjölgunar nemenda var nú farið að keyra hluta þeirra daglega og fór ég því síðasta veturinn tvisvar á dag nánast yfir skólalóðina á Hvammstanga. Að loknu námi á Laugarbakka fór ég í Reykjaskóla þar sem ég þreytti síðasta landsprófið og auk þess einn vetur í framhaldsdeild. Tveimur árum síðar fór ég í bændadeildina á Hvanneyri og hengslaðist síðan við búskap á annan áratug. Eftir að hafa misst fjárhúsin og helming fjárins í snjóflóði, árið 1995, brá ég búi og flutti til Hvammstanga. Ég var fyrst sendur á eftir fénu í sláturhúsið þar sem ég vann meðan ég þoldi slíkt. Nú hef ég unnið  í þrettán ár á Bókasafni Húnaþings vestra og uni mér vel innanum bækurnar, get því gert orð Kristjáns frá Gilhaga að mínum:

 

Í rollur var ríkust mín þráin,
mér reynist sú hvöt nú dáin.
Ég fæddist í sveit
og í fyrstu ég leit
kýrrassa eins og Káinn.

Nú forsendum fylgi ég gefnum
og fagna því nýjum stefnum.
Við tölvuna sit
 með flókin  forrit
og þvælist á Veraldarvefnum.

Ég skora á Ómar Eyjólfsson á Hvammstanga að rita pistil í Feyki.

 

Áður birt í 13. tbl. Feykis

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir