Endurheimt Brimnesskóga í Skagafirði

Skagafjörður. Endurheimt Brimnesskóga. Ungmenni frá Blöndustöð Landsvirkjunar
Skagafjörður. Endurheimt Brimnesskóga. Ungmenni frá Blöndustöð Landsvirkjunar "sveifla haka og rækta nýjan skóg" í sumarblíðunni. F.v. Bríet Sara Sigurðardóttir, Máni Baldur Mánason, Sigurður Pétur Stefánsson, Finnur Karl Jónsson og Árni Jónsson. Á myndina vantar Arnar Ben Zophoníasson.

Hópur ungmenna frá Blöndustöð Landsvirkjunar gróðursetti nýlega á níunda hundrað pottaræktaðar birkiplöntur á ræktunarsvæði Brimnesskóga, félags í grennd við ána Kolku í Skagafirði. En þar hefur félagið til afnota um 23 ha lands sem er í eigu Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Tilgangur félagsins er að endurheimta hina fornu Brimnesskóga og að miðla fræðslu um verkefnið. Við endurheimt Brimnesskóga er eingöngu gróðursett birki, reynir og gulvíðir sem á uppruna í Skagafirði og hefur vaxið þar frá örófi alda.

Brimnesskógar, félag stendur fyrir verkefninu í sjálfboðavinnu með styrk frá fjölmörgum fyrirtækjum og stofnunum. Gróðursetningin er liður í endurheimt Brimnesskóga sem staðið hefur frá árinu 1996 en þá voru greinar af 11 völdum trjám í Geirmundarhólaskógi í Skagafirði teknar til kynbóta. Þá hófst ágræðsla birkis og frærækt í gróðurhúsi í Gróðrarstöðinni Mörk í Reykjavík og stóð yfir í um fimmtán ár. Félagið hefur einnig látið vefjarækta reynivið.

Fyrsta gróðursetningin var árið 2004 með tilstyrk Yrkjusjóðs frú Vigdísar Finnbogadóttur fyrrv. forseta Íslands. Um eitthundrað og fimmtíu grunnskólabörn og kennarar úr Árskóla Sauðárkróki, Grunnskólanum Hólum, Grunnskólanum Hofsósi, Grunnskólanum Sólgörðum gróðursettu þá ásamt sjálfboðaliðum. Framkvæmdastjóri félagsins heimsótti þá alla skólana og hélt fyrirlestra um verkefnið, söguna, náttúruna og menninguna.

Í landnámabók Ara fróða Þorgilssonar segir:

„Í þann tíma kom út skip í Kolbeinsárósi, hlaðið kvikfé, en þeim hvarf í Brimnesskógum unghryssi eitt, en Þórir dúfunef keypti vonina og fann síðan. Það var allra hrossa skjótast og var kölluð Fluga.“

Atburður þessi markar upphaf skógeyðingar í Skagafirði en jafnframt upphaf glæstrar hrossaeignar Skagfirðinga. Ritaðar heimildir eru til um viðartekju á þessum slóðum fram á 18. öld. Örnefni og bæjarnöfnin Víðines, Viðvík, Raftahlíð, Skógar og Skógarhlíð vitna enn um forna landkosti.

Enn finnst forn birkiskógur í Skagafirði, m.a. í Geirmundarhólaskógi, í Ljótsstaðaskógi ofan Hofsóss, í Gljúfurárgili í Viðvíkursveit og í Fögruhlíð í Austurdal. Hæstu birkitrén í þessum skógum eru nú 5-8 metra há og 12,5 metra löng.

Frá árinu 2010 hafa ungmenni á vegum Landsvirkjunar í Blöndustöð ásamt sjálfboðaliðum gróðursett trjáplöntur árlega og borið áburð á.

Kynbæturnar fóru þannig fram að greinar af sér völdum birkitrjám í Geirmundarhólaskógi voru græddar á birkirætur í 12 cm bómapottum í gróðurhúsi. Afklippurnnar úr skóginum hafa það sér til ágætis að móðurtrén voru hávaxin, beinvaxin og ljós á börk. Við gróðurhúsaræktunina verða trén geld en þegar grein og rót hafa gróið saman og vöxtur er kominn vel á veg í ágræddu plöntunum eru þær gróðursettar utan dyra og verða þær aftur frjóar eftir nokkur ár. Þá eru plönturnar fluttar aftur inn í gróðurhús. Í gróðurhúsinu vorar fyrr en úti, því er tryggt að ágræddu úrvalsplönturnar æxlast eingöngu innbyrðis. Upp af fræinu vex úrvals birki sem er ljósara á börk, beinvaxnara og verður væntanlega hærra en tré sem æxlast saman handahófskennt í skóginum. Ágræðslurnar urðu eitthvað á þriðja hundraðið og dugði sá fjöldi til framleiðslu á því fræi sem þurfti til ræktunarinnar.

Vefjaræktun reyniviðarins fór þannig fram að síðvetrar voru klipptar greinar af völdum reynitrjám í Geirmundarhólaskógi. Greinunum var stungið í vatn og þegar brumin voru við það að springa út voru þau „söxuð niður í ræktunarvökva í tilraunaglösum.“ Í ræktunarvökvanum myndast blöð og rætur og eru plöntuvísarnir gróðursettir í mold til áframeldis. Úr vefjaræktuninni komu um fjögur hundruð reyniplöntur og af þeim lifðu um tvöhundruð og fimmtíu plöntur sem voru gróðursettar.

Stjórn Brimnesskóga skipa Stefán Guðjónsson stjórnarformaður, Steinn Kárason framkvæmdastjóri, Jón Ásbergsson, Sölvi Sveinsson og Vilhjálmur Egilsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir