Framfarir

Haraldur Benediktsson
Haraldur Benediktsson

Byggðamálið stóra, úrbætur í fjarskiptum, er komið á gott skrið og engin ástæða til annars en fagna góðum áföngum sem nú vinnast á hverjum degi.

Það eru miklar framfarir sem fylgja í kjölfar aukinnar útbreiðslu og aðgangs að ljósleiðara. Breyting á aðstæðum fólks með bættum fjarskiptum er eðlilega mismikil, allt eftir því hvernig fólk nýtir fjarskiptatæknina. En veruleikinn er að margir í sveitum búa við vonlaust fjarskiptasamband. Brýn þörf fyrir afkastamiklar og traustar nettengingar er hluti af okkar daglega veruleika.

Fátt bendir til annars en að mikilvægi slíkra tenginga aukist og kröfurnar verða stöðugt meiri. Nettenging er hluti af því að halda heimili ,reka fyrirtæki, stunda nám og afþreyingu.  En fyrst og fremst er góð nettenging öflugasta verkfærið sem við höfum til að rjúfa einangrun og veita okkur frelsi til að velja búsetu óháð staðsetningu. Þannig verður heimurinn ætíð við hendina.

Ríkisstjórnin boðaði í stefnuyfirlýsingu sinni átak í útbreiðslu ljósleiðara. Verkið er komið á fullt skrið. Á þessu ári verða byggðar um 1.000 tengingar af um 4.000 tengingum sem landsátakið  Ísland ljóstengt nær til. Þessar tölur segja ekki alla söguna því sagan er svo miklu magnaðri. Við vinnum að útbreiðslu ljósleiðara á um 70% alls láglendis í byggð í Ísland ljóstengt.  Það kerfi verður jafnframt bakstykki þess að hægt verður að byggja öflug farnetkerfi.

Á Norðurlandi vestra eru nú í gangi gríðarmiklar framkvæmdir í lagningu ljósleiðara sem munu leiða af sér framfarir fyrir byggðina þar. Það er mikilvægt að á því landsvæði hafi tekist með dugmiklum krafti sveitarstjórna og stuðningi Ísland ljóstengt að ná stórum áföngum í ár.  Húnaþing vestra sem stendur nú í miklu innviðaátaki með lagningu hitaveitu, ljósleiðara og 3 fasa rafmagns.  Húnavatnshreppur sem hlaut verulegt framlag til að byggja heilstætt ljósleiðarkerfi. Skagabyggð sem er að ljúka stórmerkilegu innviðaátaki með lagningu ljósleiðara og lokahnykkurinn í sumar kemur reyndar til með teygja sig í næsta sveitafélag samhliða lagningu rafstrengs. Blönduósbær byggir ljósleiðarakerfi í öllu sínu dreifbýli. Sveitafélagið Skagafjörður nær jafnframt merkum áfanga í lagningu ljósleiðara.

Ekki má gleyma þeim sveitafélögum sem áður hafa byggt ljósleiðarakerfi og fengu lítinn eða engan hljómgrunn fyrir því verkefni hjá stjórnvöldum fyrr á árum.

Hvað þýðir svo allt þetta í raun og veru? Stutta svarið er að við getum ekkert fullyrt á þessum tímapunkti, svo tæmandi sé. Mín trú er að afleiðingarnar getum við ekki séð fyrir því möguleikarnir spretta fram á hverjum degi þegar að íbúarnir virkja sínar tengingar og átta sig á tækifærunum.

Ég ætla að leyfa mér hér að vitna í tvenn ummæli fólks sem býr í þessum sveitafélögum sem hér hafa verið nefnd. Þau ummæli eru lýsandi fyrir þann hug sem fólkið sjálft ber til nýrra tíma. „Ég er að fá bæði hitaveitu og ljósleiðara sem er frábært. Viðurkenni fúslega að mest hlakka ég til þeirra breytinga sem koma með ljósleiðaranum.“   „Við buðum dóttur okkar og tengdasyni að taka við búinu í fyrra.  Þau treystu sér ekki til þess þó áhugann vantaði ekki vegna þess að þá gæti tengdasonur okkar ekki sinnt vinnu vegna þess að almennilega nettengingu vantar. Eftir að varð ljóst að ljósleiðari kæmi hér breyttist hugur þeirra og nú afráðið að þau taka við búinu í haust og setjast hér að. Það hefði aldrei gerst nema vegna þess að hér kemur ljósleiðari.“

Það er mikilvægt að fylgja fast eftir þessu mesta framfara- og byggðamáli samtímans á næstu árum. Þó allir vilji úrbætur strax í dag þá skiptir mestu máli að við erum loksins farin að láta verkin tala. 

Haraldur Benediktsson

Þingmaður NV kjördæmis og formaður Fjarskiptasjóðs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir