Hver á að selja vínið?

„Brennivín er besti matur“, sagði Haraldur frá Kambi eitt sinn og hefur sjálfsagt verið að spá í eitthvað annað en næringargildið því það er af skornum skammti í íslenska brennivíninu eða Svartadauðanum eins og það er stundum kallað. Að vísu gefur það 233 kílókaloríur á 100 grömmin þar sem þau innihalda 33,4 gr. alkóhól, (hvert gramm af alkóhóli gefur 7 hitaeiningar). Önnur efni eru ekki til staðar ef frá er talið vatn, sink og kopar.

Nú er enn eina ferðina lagt í leiðangur með lagafrumvarp á Alþingi þar sem lagt er til að einkasala ríkisins verði afnumin. Málið er umdeilt svo ekki sé kveðið fastar að orði. Vilja sumir meina að allt muni fara lóðrétt til helvítis ef vínið verði selt í matvörubúðum. (Svo var líka sagt áður en bjórinn var leyfður þann 1. mars árið 1989).

Brennivín var upphaflega framleitt af Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins frá lokum áfengisbannsins 1. febrúar 1935 til 26. júní 1992 þegar Vífilfell tók við framleiðslunni. Það er nú framleitt af Ölgerðinni.

„Bragðið góða svíkur eigi“, er næsta hending Halla en hér verður að fara varlega í fullyrðingar. Bragðsmekkur fólks er æði  misjafn og þekki ég marga sem ekki eru hrifnir af brennivíninu þó svo að lítið sé drukkið í hvert sinn. Ég sjálfur er nýhættur að kúgast við að smakka það og stafar sá kvilli af ofdrykkju á unglingsárunum. Þá var harðbannað að selja bjór og því var drukkið brennivín af miklum krafti. Ég mæli ekkert sérstaklega með því. Þetta skánaði pínu hjá mér eftir að bjórinn var leyfður. Ég gubba minna og dey sjaldnar áfengisdauða. Þegar ég var 16 vetra var ekkert Ríki á Króknum og allt brennivín pantað frá Siglufirði. Hvorki aldur né fjarlægð frá áfenginu aftraði þeim, sem á annað borð ætluðu sér að detta í´ða, að útvega sér áfengi.

„Eins og hundur fell ég flatur“, hélt skáldið áfram og var nokkuð samkvæmur sjálfum sér. Margir hafa farið flatt í umgengni sinni við alkóhólið og sagði Svanur, heitinn frændi minn, Jóhannsson eitt sinn við Frigga Pálma: „Varaðu þig á áfenginu, það hefur leikið margan ungan manninn lausum hala!“

Ég hef heyrt og séð röksemdarfærslur óvirkra alkóhólista gegn því að leyfa sölu áfengis í búðum og snúa þær allar að því að erfiðara verður fyrir þá að standast freistinguna að lauma ekki einni bokku með heim er þeir fara að versla í matinn. Það er ekki gott! Eitt sinn sá ég ágætan mann segja í sjónvarpi að það ætti að banna eitthvert tilgreint rúðuhreinsiefni á bensínsjoppum, því það væri stórhættulegur drykkur.

„Fyrir því á hverjum degi“, er síðasta hending vísunnar hans Halla sem sjálfum þótti sopinn góður, eins og margar vísur hans gefa til kynna.  Hvort sem áfengi verður selt í einkasölu ríkisins í framtíðinni eða af einkaaðilum er það víst að allir þurfa að temja sér meðalhófið í áfengisdrykkju ef menn drekka þá á annað borð. Ofdrykkja er slæm eins og allt sem neytt er í óhófi.

Ég sjálfur er búinn að fara marga hringi með þá skoðun mína hvort leyfa eigi sölu áfengis í búðum. Drykkjusiðir mínir, sem eru ekkert endilega til fyrirmyndar, munu líklegast ekkert breytast, þar sem ég á yfirleitt til bjór í kælinum. Þetta er bara spurning um prinsippið. Á ríkið að vera eitt að vasast í þessu?

Páll Friðriksson

 

Leiðari 10. tbl. Feykis

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir