Laun fyrir lífi – ungra bænda og íslenskra sveita

Erindi fundarins.MYND AÐSEND
Erindi fundarins.MYND AÐSEND

Næstkomandi fimmtudag kl. 13:00 efna Samtök ungra bænda til baráttufundar fyrir lífi sínu og sveitanna í Salnum í Kópavogi. Átta ungir bændur munu taka til máls auk þriggja gestafyrirlesara auk þess sem málin verða rædd í pallborði með þátttöku gesta í sal. Vonast er eftir troðfullu húsi og góðri mætingu ráðherra og þingmanna sem halda á fjöreggi þjóðarinnar í matvælaframleiðslu, landbúnaðinum, sem fjöldi ungs fólks er um þessar mundir að flýja eða forðast. Þeir sem ekki eiga heimangegnt geta fylgst með fundinum í streymi.

Ungir bændur standa flestir frammi fyrir fjárhagslegum ómöguleika og ungt fólk sem vill hefja hefðbundinn búskap á enga möguleika. Mikil ógn steðjar því að nauðsynlegri nýliðun í stétt bænda. Um leið er fæðuöryggi þjóðarinnar sett í uppnám. Skýr merki sáust nýlega um að þegar harðnar á dalnum er hver þjóð sjálfri sér næst hvað nauðþurftir varðar. Þess vegna þurfum við að slá skjaldborg um íslenskan landbúnað.

Til viðbótar við vandamálin mun á fundinum einnig verða fjallað um þau stórkostlegu nýju tækifæri sem blasa við íslenskum landbúnaði á heimsmarkaði. Þau felast m.a. í aukinni umhverfisvitund jarðarbúa, nýjum kröfum um heilnæmi matvæla, vistvæna orkugjafa í framleiðslunni og heilbrigða búskaparhætti. Í þessum efnum erum við í allra fremstu röð. Fjölmörg tækifæri felast einnig í framsækinni nýsköpun í krafti þekkingar og nýrrar tækni. Til þess að nýta þessi sóknarfæri þurfa stjórnvöld að ryðja brautina og opna ungu fólki ný og spennandi tækifæri jafnt til búskapar sem rannsóknar-,vísinda- og þróunarstarfa á sviði landbúnaðarins.

Í drögum að ályktun sem borin verður upp til samþykktar á fundinum er skorað á stjórnvöld að opna augun, leggja við hlustir og skapa sinn eigin skilning á raunverulegri stöðu landbúnaðarins. Segir þar m.a. að það séu beinlínis falsfréttir, eða í besta falli einkenni upplýsingaóreiðu, að búrekstur á Íslandi njóti meiri opinbers stuðnings en í nágrannalöndum okkar í austri og vestri. Staðreyndin sé sú að hvar sem er í heiminum sé ræktun og framleiðsla landbúnaðarafurða svo kostnaðarsöm að stjórnvöld á hverjum stað kjósi að styðja starfsemina með margvíslegum hætti.

Dalabyggð 22. október 2023

Fréttatilkynning frá Samtökum ungra bænda

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir