Má bjóða þér ruslaþvottavél? :: Leiðari Feykis

Vel þrifin G-mjólkurferna, tilbúin í grænu tunnuna. Mynd af FB-síðu Flokku.
Vel þrifin G-mjólkurferna, tilbúin í grænu tunnuna. Mynd af FB-síðu Flokku.

Það hefur ekki farið framhjá mörgum að hringrásarhagkerfið er komið til að vera með flokkun sorps á hverju heimili landsmanna. Frá 1. apríl sl. eiga allir að flokka samkvæmt landslögum. Flokkun hefur reyndar víða verið viðhöfð í einhvern tíma en annars staðar er þetta nýtt t.d. í dreifbýli Skagafjarðar. Þar sem ég bý, á Króknum, hefur verið flokkað í einhver ár og gengið án vandræða.

Í bæklingi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um Hringrásarhagkerfið kemur fram að það sé hagkerfi þar sem vörur, hlutir og efni halda verðmæti sínu og notagildi eins lengi og mögulegt er. Hönnun og framleiðsla vöru er þannig að hún endist lengi og auðvelt er að gera við hana og endurvinna. Verði vara að úrgangi tekur við skilvirk flokkun, söfnun og endurvinnsla sem heldur hráefnum í hringrás og er markmiðið að draga úr auðlindanotkun, auka líftíma auðlinda jarðar og koma í veg fyrir að efni og hlutir hverfi úr hagkerfinu sem úrgangur.

Hvers vegna skiptir hringrásarhagkerfið máli?, er spurt í bæklingnum og því svarað jafnharðan: „Línulegt hagkerfi nútímans hefur ýtt undir stuttan líftíma vara og ásókn í auðlindir. Auðlindaásókn er nærri tvöfalt meiri en mögulegt er að standa undir með sjálfbærum hætti. Það leiðir til hnignunar lífríkis og neikvæðra loftslagsáhrifa.

Með hringrásarhagkerfi má auka hagsæld og lífsgæði en um leið standa vörð um takmarkaðar auðlindir jarðar, stuðla að sjálfbærni og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.“

Til mikils er að vinna því gríðarlegt magn sorps hefur verið grafið í jörð sem hæglega hefði verið hægt að endurvinna. Í fyrrnefndum bæklingi segir að helmingur alls plastúrgangs í heiminum séu plastumbúðir, í flestum tilfellum einnota, sem er einnig ein algengasta tegund rusls í sjó og á ströndum. Magn plastumbúðaúrgangs er um 47 kg á hvern Íslending á ári, alls 16.500 tonn. Þróun á magni heimilisúrgangs á Íslandi hefur verið nátengd þróun hagvaxtar og var 664 kg á íbúa árið 2019. Það er með því mesta sem gerist í þróuðum ríkjum. Hringrásarhagkerfið miðar að því að rjúfa þessi tengsl. Endurvinnsla heimilisúrgangs á Íslandi er um 30% en á EES-svæðinu er hún 46%.

Að flokka getur vafist fyrir fólki í byrjun en af fenginni reynslu get ég sagt með sanni að þetta er mun minna mál en kannski sýnist í byrjun. Auðveldlega getur maður fengið flokkun og þvott á rusli á heilann og jafnvel dreymt um það á nóttunni hvernig best sé að flokka. Ég sjálfur var ekkert yfir mig hrifinn í fyrstu að þurfa að flokka ruslið á heimilinu, sem áður fór bara í einn poka og í eina tunnu en nú er það svo að maður má ekki sjá rusl í rangri tunnu og þvottur á því er kominn í daglegu rútínuna. Ég er mest hissa á að enginn skuli vera búinn að markaðssetja ruslaþvottavél fyrir heimili. Hugmyndin fæst frítt!

Góðar stundir!

Páll Friðriksson, ritstjóri

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir