RÉTTINDI

Forréttindi, sérréttindi, kvenréttindi, mannréttindi, jafnrétti, umgengisréttur. Allt eru þetta íslensk orð, sem ætla mætti að nútíminn hefði í heiðri og lifði eftir í siðuðu samfélagi. Breyttir tímar hafa skerpt merkingu þeirra og breytt þjóðfélagsgerð fengið þeim annan farveg til eftirbreytni. Þó siðalögmál, kurteisi og tillitsemi, séu á öllum tímum grunnurinn að jafnræði og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum.

Eldri gerð þessa þjóðfélags  útheimti skarpa verkefnaskiptingu milli karla og kvenna, hin svokölluðu karlmanns og kvenmannsverk, utan húss og innan, skerptu þær línur. Það er of löng saga til að gera henni skil í fáum orðum. Þar skapaðist sú hefð, að karlmaðurinn var hinn ráðandi armur sambandsins milli kynjanna á opinberum vettvangi og í efnahagslegu tilliti. En þetta er liðin tíð.

Nú mætti ætla, þegar þjóðfélagsgerðin hefur tekið slíkum stakkaskiptum sem raun ber vitni, og konur komnar með lögleg réttindi til jafns við karla. Meira að segja tískan leyfir þeim að  ganga í buxum eins og strákar og velja sér störf á sama vettvangi að vild. Feður sömuleiðis farnir að huga meira að heimilisstörfum og samveru með börnum sínum.  Brautin til jafnréttis er opin og auðveldari fyrir bæði kynin að skapa sér sameiginlega hamingjuríkari framtíð, hvort sem litið er til fjölskyldulífs, eða vinnu utan þess. Þó margt sé enn óunnið og undir því komið, hvernig undirstöður verða lagðar að framtíðar umferð á þeirri braut og siðalögmál virt í umgengni, þá verður ekki séð annað, en bæði konur og karlar hafi jafnan rétt til að skapa þá framtíð, og skyldu til að taka ábyrgð á  hvernig til tekst í framkvæmd.

Það er því mikið umhugsunarefni, sem birtist og heyrist í fjölmiðlafári nútímans, um samskipti og umgengisvenjur karla við konur, ef það á að yfirfærast á daglegt líf til framtíðar. Eru konur þarna að reyna að koma orðum að, eða losna við gremju og kúgun umliðinna alda, eða treysta þær sér ekki til að standa fyrir sínu, þegar út á hólminn er komið. Ætla þær áfram að biðja bara um náð, miskunn og vernd, sem umkomulaus minnimáttar aðili í samskiptum kynjanna. Eru MANNASIÐIR ekki komnir lengra frá dýrseðlinu en svo, að sjálfsstjórn og sjálfsvirðing komi í veg fyrir skepnuskap í samskiptum kynja. 

Hvar er krafan um virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Á allt að sitja í sama fari kynjakúgunar og ranghugmynda um MANNGILDI einstaklingsins, til hvaða kyns eða þjóðernis sem hann eða hún telst vera. Þarf ekki að árétta þá eðlilegu kröfu til beggja kynja, og kenna þeim sem eiga ólært.

Hvað er uppeldið og jafnréttisfræðsla skólanna að gera í þeim málum, vegna breyttrar þjóðfélagsgerðar og atvinnuhátta samfélagsins? Breytt viðhorf, búsetu hættir, stjórnarfar, og atvinna, útheimta breytt hugarfar og sýn á raunveruleikann í daglegu lífi fólks. Ábyrgðin hvílir á hverjum og einum einstaklingi, að móta það samfélag að menningarvænu siðaðra manna þjóðfélagi.

Eru karlmenn ekki búnir að fá nóg af því að liggja undir því óorði, að geta ekki séð kvenpils nema lyfta því upp og sjá hvað þeir geta komist langt með að leika sér að því sem þar leynist.  Eða halda konur ennþá að þær þurfi að leggja gildrur með stuttum pilsum og berum brjóstum, til að veiða sér maka og fyrirvinnu, eins og það var kallað. Hvorugt kynið sækir sóma sinn né virðingu í þann rann. Og hvorugt kynið getur ætlast til að það óorð verði af þeim máð, nema með eigin verðleikum og viðeigandi framkomu í samskiptum daglegs lífs.

Er því ekki umræðan á talsvert óvæntum villigötum, að leggja mesta áherslu á umtal um gamlar syndir, í stað þess að fylgja eftir Í FRAMKVÆMD, kröfunni um sömu laun fyrir sömu vinnu beggja kynja, afnema forréttindi karla til mannaforráða á vinnustað og við önnur störf, ætluð báðum kynjum. Þar skuli hæfni og menntun ráða vali. Sömuleiðis verður hér eftir að afnema misræmi og mat á launagreiðslum fyrir umönnunar og þjónustustörf, sem kölluð hafa verið kvennastörf, og haldið í láglaunakreppu sem slíkum. Endurskoðun og samræming á launatöxtum í  atvinnumála geiranum, er eitt af þeim mest aðkallandi málum til jafnréttis sem nú þarf að ræða og laga. Menntun, bæði bóklegs og verklegs náms, þarf að efla, endurskoða og stilla að breyttri þjóðfélagsgerð til notagildis og nýtingar fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið. Þó tölvuvinna og forritun sé framtíðardraumur til þróunar, þá verður hann aðeins leiktæki, ef honum er ekki stjórnað af þekkingu á þjóðfélagsgerð og atvinnuháttum, verkmenningu og þörf fyrir léttari starfsaðferðir við úrlausn verkefna. Maðurinn þarf því áfram að þroska fjölhæfni sína, til þess að KENNA þessum vélbúnaði aðferðirnar.

Öll þessi framtíðarsýn er svo lokkandi, að það hlýtur að kalla á rökræður og úrlausnir, sem verða báðum kynjum áhugamál að vinna að saman.  Gamli tíminn er til þess að læra af honum, forðast mistökin  en byggja á því sem vel var gert og þróa áfram með nýrri tækni.  „Unga fólkið nú á dögum“ á að geta fundið sér verðugri verkefni en níða  hvert  annað niður og lítillækka með ósæmilegu atferli. Um hegðun á almannafæri og í innbyrðis samskiptum, verður að gera þá kröfu til samfélagsins, að það gefi í orði og á borði, uppeldi og fordæmi til að læra af og þroskast til betra lífs og meiri ábyrgðar.

Því réttindum fylgir ábyrgð og ábyrgðinni fylgir krafa um tillitssemi. Það er náttúrulögmál.

Guðríður B. Helgadóttir

Áður birst í 46. tbl. Feykis 2017

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir