Reykjavík fyrir sunnan

Að vera utan að landi, búandi í borg óttans getur verið ævintýrum líkast. Sú dásemdargleði sem umlykur mann þegar maður fattar að allt sem maður girnist er innan seilingar. Kringlan, Smáralind, IKEA og Bauhaus, allt bara rétt hjá. Það koma meira að segja dagar sem ég ákveð að nýta mér þann lúxus að fara í þessar verslanir og miðstöðvar bara svona að gamni mínu, af því þær eru þarna. En innan seilingar er kannski frekar teygjanlegt orðatiltæki þegar vegalengdirnar á þessa staði eru ekkert eins og að skreppa á milli Ábæjar og Kaupfélagsins, enda allt í sitthvoru sveitarfélaginu.

Vegalengdirnar eru heldur ekkert til að hrópa húrra yfir þegar klukkan er að slá fjögur á föstudegi og ég þarf helst að ná að fara á alla þessa staði áður en ég bruna norður í sæluna. Því norðan heiða bíða spenntir vinir og ættingjar eftir varningnum sínum sem ég lofaði að redda. Sælan að hafa allt innan seilingar getur orðið að bévítans böl þegar maður lofar að sækja hitt og þetta, fyrir þennan og hinn. Svitinn drýpur af manni að hlaupa þessar verslanir endilangar og pirringurinn stigmagnast þegar maður situr pikkfastur í umferðarteppu, blótandi yfir helvítis bílnum á undan sem brunaði ekki yfir gatnamótin um leið og ljósið varð grænt.

Loksins verður leiðin greiðari og notalegri og bensínfóturinn þyngist æ meir eftir því sem nær dregur Skagafjörðinn. Ég er komin heim. Allar sendingar farnar til nýju eigendanna og kvöldmatur hjá mömmu framundan. Ég byrja að taka mitt hafurtask úr bílnum og státa mig í hljóði af því hversu vel ég fer með að pakka létt. Ég er ekki fyrr búin að taka veskið mitt og úlpuna úr bílnum þegar ég átta mig á að allt sem ég tók með í norðurferðina var annarra manna dót. Mitt var eftir í Reykjavík fyrir sunnan.

Agnes Skúladóttir, 105 Reykjavík. 

Ég vil skora á vin minn hann Eyþór Fannar Sveinsson margfaldan iðnmeistara í hinum ýmsu greinum.

Áður birst í 18. tbl. Feykis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir