Töfrar leikhússins í sinni skærustu mynd

Jóhanna S Ingólfsdóttir. MYND FACEBOOK
Jóhanna S Ingólfsdóttir. MYND FACEBOOK

Síðastliðinn sunnudag fór ég á Sauðárkrók til að sjá Benedikt búálf í uppfærslu Leikfélags Sauðárkróks og í leikstjórn Gunnars Björns Guðmundssonar.
Ég fór af stað með því hugarfari að fara á barnasýningu sem mögulega myndi skilja eftir svona gott í hjartanu tilfinningu, en vá og aftur vá. Þessi sýning hjá leikfélagi Sauðárkróks lyfti mér úr sætinu og töfraði mig upp úr skónum, ég sveiflaðist svo gjörsamlega með hverri einustu sveiflu á sviðinu að það var eins og ég væri stödd í Álfheimum.

Þegar inn í leikhúsið var komið þá blasti sviðsmyndin fyrir mér, fjögur stór verkleg tré og tvö þrep sem lágu upp, inn af sviðinu, látlaust og lét lítið fyrir sér fara. Þegar upp var staðið skilaði hún svo sannarlega öllum töfrunum og rúmlega það. Ljósinn fara niður, tónlistin hefst og Benedikt búálfur kom syngjandi inn á meðal áhorfenda. Benedikt sem er leikinn af Eysteini Ívari Guðbrandssyni átti hvern einasta andardrátt í salnum, söngurinn, útgeislunin og staða hélt mér allt verkið í gegn og hef ég sjaldan verið eins sannfærð í leikhúsi um að persónan sé sú sem hann er að leika.

Persónurnar týndust svo inn, ein af annarri. Tóti tannálfur, leikinn af Ástu Ólöfu Jónsdóttur var mjög lítill og ljúfur og fann ég til með honum þegar honum var rænt af Sölvari súra sem er leikinn af Guðbrandi Guðbrandssyni hann skilaði honum mjög vel sem hræðilega dökk álfinum sem hann er. Aðalsteinn álfakóngur og Brynhildur Álfadrottning, leikin af Óskari Aroni Stefánssyni og Kristey Rut Konráðsdóttur voru alveg frábær, söngur Kristeyjar var algjörlega óaðfinnanlegur og tvisvar náði hún að gefa mér gæsahúð. Lagið Góða ferð, söng hún áreynslulaust og lagið Öll ljóssins öfl, sem Benedikt búálfur kom inn í og raddaði sönginn hjá Brynhildi með öðrum texta, upplifði ég eins og ég væri stödd á stórtónleika sýningu.

Dídí mannsbarn leikin af Emelíönu Lillý kemur svo til leiks og enn birtast töfrarnir á sviðinu, þessi unga stúlka söng sig inn með svo mikilli sannfæringu að ég trúði því frá fyrstu mínútu að hún væri bara lítil stelpa, söngur og leikur óaðfinnanlegur. Þau hitta svo Jósafat mannahrellir sem er leikinn af Inga Sigþór Gunnarssyni sem kemur inn af miklum krafti, þvílíkir hæfileikar, leikur og söngur magnaður. Daði Dreki leikinn af Flóru Rún Haraldsdóttur lét sko ekki sitt eftir liggja í þessum glæsilega hóp. Daði dreki var mjög sannfærandi í öllum sínum tilfinningum, hræðslu, óöryggi og hugrekki. Sveiflurnar voru bæði sannfærandi og mjög grátbroslegar.

Allir hinir, Álfar og Dökkálfar sem voru leiknir mikið af sama fólkinu, stóðu sig frábærlega og voru ávalt á réttum stað á réttum tíma til að skapa rétta stemningu og andrúmsloft.
Söngur var óaðfinnanlegur, dans og kóríógrafía var algjörlega til fyrirmyndar og gerðu hárrétta stemningu hvar sem því var komið við.

Þó sviðsmynd væri mínímalísk þá skilaði hún svo sannarlega sínu, lýsing spilaði stóran þátt í því að gera andrúmsloftið rétt. Ég verð að hrósa ljósahönnuði sérstaklega Eiríkur Frímann Arnarson, öll lýsing gerði það að verkum að ég upplifði að ég væri stödd í Álfheimum, lítil tæknileg ljósa atriði eins og þegar ljósin lýstu á talandi tréið og það lifnaði við eða þegar viskubrunnurinn kom inn á sviðið og lýstist upp á svo töfrandi hátt að ég skil enn þá ekki hvaðan ljósið kom. Einnig verð ég að minnast á þegar Benedikt og Dídí fljúga til Álfheima, þá tóku ljósin mig svo algjörlega á loft að ég trúði því gjörsamlega að við værum að svífa.

Heilt yfir var allt sem spilaði saman að gera þessa sýningu algjörlega frábæra, hæfileikaríkt fólk í öllum stöðum, leikur, söngur, dans, ljós og tækni, unnu saman að töfrum leikhússins og skildu mig eftir sem áhorfanda algjörlega dolfallin.

Til hamingju Leikfélag Sauðárkróks og Gunnar Björn Guðmundsson með þessa frábæru sýningu.

Ekki láta þessa sýningu hjá Leikfélagi Sauðárkróks fram hjá ykkur fara.

Takk fyrir mig Jóhanna S. Ingólfsdóttir.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir