Við áramót : Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur Björn Einarsson.MYND AÐSEND
Teitur Björn Einarsson.MYND AÐSEND

Við horfum nú við áramót að baki viðburðaríku ári hér heima á Íslandi og á erlendri grundu. Náttúruhamfarir á Reykjanesi, kjaramál og verkföll, efnahagsórói og raforkuskortur hafa verið helstu viðfangsefni ársins og munu fylgja okkur inn í nýja árið ef af líkum lætur. Sama er uppi á teningnum á alþjóðavettvangi þar sem stríð geisa og átök brjótast út milli þjóðfélagshópa. Spennustigið er því miður víða of hátt og óvenjulegar forsetakosningar á næsta ári í öflugasta lýðræðisríki heims munu væntanlega ekki slá á þær væringar. En það er aftur á móti jafn líklegt að hugsanlegar forsetakosningar hér á landi í júní næstkomandi munu ekki rugga bátnum á alþjóðavettvangi.

Stjórnmálin hér innanlands hafa ekki farið varhluta af þessum vendingum. Hafa þau sumpart verið uppspretta átaka og óánægju eins og vanhugsuð stöðvun hvalveiða í sumar ber vitni um. Raforkuskort í landinu má einnig rekja til grundvallarágreinings milli stjórnmálaflokka þjóðarinnar um nýtingu náttúruauðlinda - hvort virkja eigi græna orku í þágu landsmanna og loftslagsmarkmiða eða vernda land og þjóð gegn frekari verðmætasköpun og velmegun.

Rjúfa þarf stöðnun í raforkuframleiðslu

Rammaáætlun hefur misst marks og ekki orðið neinn grundvöllur sátta heldur þess í stað getið af sér nýtt skrifræðisbákn hins opinbera um matsáætlanir, leyfisveitingaferla, umsagnir og kæruleiðir. Umsóknir um virkjanaleyfi eða framkvæmdaleyfi fyrir lagningu raflína eru árum saman að velkjast um í kerfinu. Eftirspurn er eftir raforku svo hægt sé að ráðast í uppbyggingu margs konar iðnaðar- og matvælaframleiðslu víðs vegar um land en allt eru þetta að verða að glötuðum tækifæri vegna orkuskorts.

Einstaklingsframtak og athafnasemi til uppbyggingar og verðmætasköpunar á við ofurefli stofnanahers að etja sem er brynjaður matskenndum stjórnvaldsákvörðunum, studdur róttækum afturhaldsöflum. Á þennan Gordíons-hnút stöðnunar í raforkumálum þjóðarinnar verður að höggva með öllum tiltækum ráðum. Mögulega þarf löggjafinn að grípa beint inn í málið og setja einstaka virkjanaframkvæmdir á laggirnar með lögum en samhliða verður að ráðast að ýmsum þáttum í reglugerðarfarganinu og grisja.

Skynsamir samningar verða að nást

Hátt vaxtastig plagar nú heimili og fyrirtæki landsins og brýnasta úrlausnarefni efnahagsmála er þar af leiðandi að ná niður verðbólgu. Í þeirri baráttu duga hvorki vettlingatök né skammtímalausnir. Markmið bæði stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins hlýtur að vera að stuðla áfram að ábyrgri stjórn ríkisfjármála og gerð skynsamra kjarasamninga sem eru í takti við verðmætasköpunina í landinu. Fyrir ríkisstjórnina hlýtur það að vera keppikefli að hlusta vel eftir því hvað það er sem stjórnvöld geta lagt af mörkum til að greiða götur slíkra kjarasamninga til lengri tíma.

En meginforsenda þess að hægt sé að bæta lífskjör alls almennings er að okkur auðnist að skapa meiri verðmæti, að okkur takist að skapa áfram skilyrði fyrir auknum hagvexti og framleiðni, efla framleiðslu- og útflutningsgreinar og nýta þann mannauð sem hér er til frekari nýsköpunar og tækniframfara. Þetta er grundvallaratriði og öll umræða um ríkisfjármál eða styrkingu velferðarkerfisins verður að taka mið af þessum augljósu sannindum.

Vöxtur til velsældar – ekki ríkisvæðing

Það er ekki hægt að auka velferð með því að hækka skatta. Þeir peningar sem renna eiga í ríkissjóð með þeim hætti eru ekki til. Fjármunir verða til með aukinni verðmætasköpun og til þess þarf kröftugt atvinnulíf. Um þetta grundvallaratriði verður tekist á um á nýju ár sem fyrr.

Hlúa þarf að samkeppnishæfni sjávarútvegsins og skapa fiskeldi trausta umgjörð til vaxtar, tryggja verður landbúnaðinum betri rekstrarskilyrði og veita greininni heimild til að keppa við innflutning á matvælum á jafnari grunni. Þá eru ótalin fjölmörg tækifæri til frekari uppbyggingar iðnaðar á grunni hugvits, nýsköpunar og grænna orku.

Hitt er og víst, að áfram, áfram miðar.
Upp, fram til ljóssins tímans lúður kliðar.

Öldin oss vekur ei til værðarfriðar.
Ung er hún sjálf, og heimtar starf, án biðar.

(Hannes Hafstein, úr Aldamótum)

Ég óska öllum íbúum Norðvesturkjördæmis gleðilegs og farsæls nýs árs og um leið þakka ég fyrir ánægjulegt samstarf og samvinnu á viðburðarríku ári sem er að líða.

Teitur Björn Einarsson,
þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir