Baldri og Alla dugar sjötta sætið

Aðalsteinn Símonarson og Sauðkrækingurinn Baldur Haraldsson skipa liðið Tímon. Mynd: Guðný Guðmarsdóttir.
Aðalsteinn Símonarson og Sauðkrækingurinn Baldur Haraldsson skipa liðið Tímon. Mynd: Guðný Guðmarsdóttir.

Næst komandi laugardag fer fram fimmta og síðasta umferð ársins í Íslandsmótinu í rallý. Eknar verða fjórar sérleiðir í nágrenni Langjökuls, það er á Skjaldbreiðarvegi og Kaldadal, og má búast við hörku keppni þar sem staða í Íslandsmótinu er mjög jöfn í öllum flokkum.

Til leiks eru skráðar 10 áhafnir og er ljóst eftir dramatík síðustu tveggja umferða að búast má við miklum átökum. Þannig tókst einungis helmingi þátttakenda að ljúka síðustu keppni þar sem Skjaldbreiðarvegur reyndist mönnum m.a. erfiður.

Íslandsmeistararnir frá í fyrra, Baldur Haraldsson og Aðalsteinn Símonarson, leiða heildarmótið, en einungis ein áhöfn hefur möguleika á að ná þeim að stigum. Eru það systkinin Daníel og Ásta Sigurðarbörn sem mæta á ný innfluttum, öflugum bíl í þessa keppni og ætla þau sér sigur. Öruggt má telja að þessar áhafnir muni berjast um verðlaunasæti í keppninni en Baldri og Aðalsteini nægir sjötta sæti á laugardag til að hampa Íslandsmeistaratitlinum, þó Daníel og Ásta sigri.

Í jeppaflokki eru efst til Íslandsmeistara feðginin Sighvatur Sigurðsson og Anna María Sighvatsdóttir. Skammt á hæla þeim eru þeir Þorkell Símonarson og Þórarinn K. Þórarinsson Eru báðar áhafnir skráðar til leiks og öruggt að hvorug mun gefa sekúndu eftir í baráttunni.

Í flokki bíla án túrbínu leiða Baldur Hlöðversson og Hanna Rún Ragnarsdóttir Íslandsmótið en fast á eftir þeir eru hjónin Ólafur Þór Ólafsson og Tinna Rós Vilhjálmsdóttir.Ætlun þeirra var einungis að taka þátt í einni keppni á árinu sér til ánægju og yndisauka en árangurinn varð slíkur að þau mæta til leiks enda komin í hörku baráttu.

Hægt er fylgjast með upplýsingum um keppnina og úrslitum á heimasíðu Bifreiðaíþróttaklúbbs Reykjavíkur, www.bikr.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir